Umgengni um nytjastofna sjávar

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 16:12:30 (6572)

2004-04-16 16:12:30# 130. lþ. 100.3 fundur 875. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (landanir erlendis, undirmálsfiskur) frv. 65/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Málið er ekki stórt í sniðum, en snýr þó að framkvæmd fiskveiðistjórnarlaganna, eftirliti og öðru slíku. Ég hef áður fjallað um reglurnar á öðrum vettvangi en í þessum ræðustól, bæði 1. og 2. gr., um eftirlit með annars vegar afla sem var heimilað að landa til bræðslu erlendis og settar um það sérstakar reglur og viðurkenningar á verksmiðjum sem ráðuneytið viðurkenndi sem löndunarstað fyrir bræðslufisk og hins vegar sölu ísfisks sem var að jafnaði seldur á opnum fiskmarkaði þar sem fiskurinn var flokkaður og seldur.

Nú erum við hins vegar að opna fyrir veiðar úr stofnum eins og loðnu, kolmunna, norsk-íslenskri síld og úthafskarfa eins og hér er nefnt, að um það geti verið að ræða að þessu sé landað erlendis til annarrar vinnslu en til bræðslunnar og með slíkri breytingu sé hægt að heimila löndun eins og lagt er til í frv. Þetta nær sjálfsagt til fleiri fisktegunda eins og makríls og grálúðu ef því er að skipta, enda er hér ekki um tæmandi upptalningu að ræða, t.d. þar sem talið er o.s.frv.

Ég spyr hins vegar að því hvernig eftirlitinu verði háttað því ekki er gert ráð fyrir, að því er mér virðist, að aflinn verði seldur á uppboðsmarkaði og eftirlitið fari fram á markaðnum til annarrar vinnslu en bræðslunnar eins og áður var heimilt.

[16:15]

Ef ekki á að landa inn á markaði þar sem flokkun fer fram þarf að velta því fyrir sér hvernig eftirlitið er, það er ef við ætlum að hafa svona sambærilega vitneskju um þetta eins og gerð er krafa til hér innan lands um afla.

Ég spyr einnig: Á að hantera meðafla með kolmunna, síld og öðrum uppsjávarfiskum sem berst í vörpu veiðiskipa með sama hætti og verið hefur hingað til hér á landi, þ.e. að hann sé nánast ekki talinn með í aflamarki skipa ef þau stunda ákveðnar veiðar en talin með í aflamarki annarra skipa sem stunda botnfiskveiðar? Þar lenda menn í veiðileyfissviptingum, sektum og fangelsi og hvað það nú allt heitir út af 12 fiskum, 40 fiskum eða einhverri annarri tölu.

Síðan höfum við dæmi um það, meira að segja í skriflegu svari frá hæstv. sjávarútvegsráðherra, að afla --- mig minnir að það hafi verið karfi og skipið Ásgrímur Halldórsson --- var landað án þess að hann hafi verið tekinn til aflahlutdeildar eða yfirleitt neitt með það gert. Þannig er nú framkvæmdin dálítið misjöfn. Ég vil spyrja hvernig ráðherrann hyggst fylgja þessu eftir þegar kemur að meðaflanum, til dæmis í kolmunnaveiði. Hæstv. sjávarútvegsráðherra upplýsti það í svari sínu að á kolmunnaveiðum meðal annars á lögsögumörkum eða utan lögsögunnar hefðu skip fengið þó nokkurn meðafla og aðallega ufsa, nokkur hundruð tonn. Mig minnir að áætlað hafi verið að það hefðu verið yfir þúsund tonn af ufsa. Þetta er spurning sem ég legg inn í þessa umræðu og vona að hæstv. ráðherra upplýsi hvaða hugleiðingar hann hefur um það að setja reglugerð eða fylgja því eftir hvernig aflinn telst til aflamarks. Það þyrfti að huga að þessu líka innan lögsögunnar því ekki er viðunandi að þetta sé misjafnt eftir því hvaða veiðiskap menn stunda. Ef þetta er svo heilagt að hægt er að svipta menn atvinnu sinni í þrjár vikur fyrir 200 kíló af fiski þá hlýtur það alveg eins að ná yfir 300 kíló af karfa í afla Ásgríms Halldórssonar eins og annarra skipa. Þetta var nú um þessa grein.

Síðan er það undirmálið og hvort taka megi tillit til stærðar eða þyngdar. Ég held að það sé alveg jafnfullgilt að nota hvora viðmiðunina sem er. Ég tek líka undir það að eðlilegt sé að það megi flokka fiskstærð frá í landi. Við vitum að þegar landað er á fiskmarkað þá taka fiskmarkaðirnir fiskinn til flokkunar í talsverðum mæli ef hann hefur ekki verið flokkaður um borð. Þá flokkast hann í ákveðnar stærðir. Þar af leiðandi er auðvelt að flokka undirmálsfiskinn frá. Þetta getur einnig gerst með karfaafla þegar fiskvinnslur taka við heilum förmum af karfa og það er blandaður afli. Ég held að það bjóði upp á að betri nýting verði á aflanum sem kemur í vörpuna og minni tilhneiging verði til þess að velja úr honum ef heimilt verður að flokka þetta frá sem undirmálskarfa í vinnslunum. Ég tel að þetta ákvæði sé til bóta. Ég spyr eingöngu að því hvernig ráðherrann hyggst framkvæma þetta. Á að framkvæma þetta samdægurs eins og gerist venjulega þegar landað er á fiskmarkaði hér innan lands, það er að aflinn er flokkaður ef hann kemur ekki flokkaður til markaðarins? Á að gera þá kröfu um að undirmálið sé flokkað frá innan einhvers ákveðins tíma? Á það að vera samdægurs, innan tveggja daga eða eitthvað slíkt? Vinnslustöðvarnar flokka auðvitað aflann niður og vinna hann eftir stærðum á hverjum tíma. Í sumum fiskiskipum, ferskfiskskipum, hefur verið útbúið vélrænt flokkunarkerfi sem flokkar fiskinn í lestina. Fiskinum er landað þar eftir ákveðinni stærð og eftir sérstakri karamerkingu sem er til mikillar fyrirmyndar.

Ég minnist þess að fyrir mörgum árum hélt sá sem hér stendur ræðu á fiskiþingi um að útgerðirnar ættu að henda í land fiskikössunum sem þá voru notaðir og þóttu mikil nýjung. Þá var sá sem hér stendur álitinn hálfbrjálaður og skrifaðir voru um það leiðarar í Morgunblaðið að einhver skipstjóri vestan af fjörðum legði til að bestu nýjung sem fundin hefði verið upp í íslenska flotanum yrði hent, þ.e. fiskikössunum. Ég var hins vegar að benda á að ég teldi að það tækist ekki að flokka fiskinn um borð með neinu lagi í svo smáar geymslueiningar, það yrði að gera vélvætt og hafa stærri einingar til að taka við flokkuninni, þar af leiðandi yrði að henda þessum kössum og taka upp kör. Það þótt heldur framúrstefnulegt þegar þessi ræða var flutt og ekki passa vel þó menn hafi auðvitað farið þá leið núna á seinni árum. Það er til mikillar fyrirmyndar ef hægt er að flokka aflann um borð og koma með hann nákvæmlega flokkaðan í körunum. Þá vita menn hvernig á að haga vinnslunni. Menn vita hvað þeir vilja selja frá sér strax eða ráðstafa til annarra fyrirtækja og svo framvegis eða inn á markaðinn. Það er til mikilla bóta.

Ég sé ekki að efnislega sé nein ástæða til að hafa neitt á móti því sem lagt er til í þessu frumvarpi en spyr um þetta. Ég vek svo athygli á því í lok máls míns að það er náttúrlega mikil þörf á því að afgreiða hér annað mál fyrir þinglok um þá mismunun sem 23 daga bátarnir búa við. Nú í togararallinu voru gefnar út vísitölur um að þorskstofninn hefði stækkað um 25%, að vísu með miklum fyrirvörum um holdafar hans og það að inn í vantaði tvo, þrjá árganga sem ættu að taka við, en sagt að hugsanlegt væri að bæta við aflann á næsta fiskveiðiári þó ekki yrði nú framhald á gæðum lífsins að þessu leyti. En við búum við þá löggjöf núna að þessir handfærabátar mega gera út í 19 daga á þessu fiskveiðiári og fara sennilega niður í 18 daga miðað við lögin. Á sama tíma erum við búin að bæta 30 þúsund tonnum við þorskaflann á þessu fiskveiðiári og vonandi stendur til að bæta við hann á næsta ári.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort ekki sé kominn tími til þess að enda þá mismunun sem hæstv. ráðherra stendur fyrir með því að keyra niður atvinnu eins hóps fiskimanna en atvinnu annarra upp með auknum heimildum, meðal annars með línuívilnun í desember og hvort ekki sé ráð að ráðherrann sjái að sér áður en hann fær á sig málshöfðun frá einhverjum manni sem aldrei hefur gert neitt annað en að stunda fiskveiðar á handfærabát. Það er verið að taka atvinnu hans niður og því haldið fram að það sé gert vegna þjóðhagslegra hagsmuna meðan allir aðrir bæta við sig atvinnumöguleikum. Þetta fær ekki staðist, hæstv. ráðherra, og ég held að þú standir fyrir lögbrotum með því að halda þessu áfram.