Þriðja kynslóð farsíma

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 17:06:53 (6586)

2004-04-16 17:06:53# 130. lþ. 100.4 fundur 815. mál: #A þriðja kynslóð farsíma# frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég átti síst von á andsvörum úr þessari átt í dag, en lengi skal manninn reyna. Að sjálfsögðu hefur það allt saman verið ígrundað mjög vandlega sem kom fram hjá hv. þm. Tekin var ákvörðun um að láta símafyrirtækin ekki keppa um hvaða fyrirtæki vildi borga mest fyrir aðganginn að þessum tíðnum sem síðan yrði að sjálfsögðu innheimt hjá notendum. Hver borgar brúsann fyrir slíka þjónustu annar en notandinn?

Á Íslandi er mikil og góð reynsla fyrir útboðum, m.a. hjá stofnunum samgrn. Við viljum fara þá leið að leggja áherslu á að fyrirtækin keppist um að byggja kerfið upp sem hraðast og veita sem besta þjónustu í staðinn fyrir að þau keppist um að borga sem mest í ríkissjóð fyrir aðganginn og sendi síðan reikninginn til notenda. Út á það gengur svokölluð fegurðarsamkeppni, að keppa um að veita sem besta þjónustu og mesta dreifingu. Að sjálfsögðu verður þetta allt saman mjög gegnsætt og Póst- og fjarskiptastofnun hefur góðar aðstæður til þess að útbúa þau útboðsgögn og lýsingar mjög skýrt og klárt þannig að enginn efist um að verið sé að bjóða fyrirtækjunum upp á að keppa um hver bjóði besta þjónustu, hver bjóði hraðasta uppbyggingu og þeir fá sem bjóða upp á það.