Bann við umskurði kvenna

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 10:35:51 (6592)

2004-04-23 10:35:51# 130. lþ. 101.13 fundur 198. mál: #A bann við umskurði kvenna# frv., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[10:35]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Ég tala fyrir máli sem legið hefur á borðum þingmanna nokkuð lengi. Þetta er 198. mál á þskj. 201 og það var raunar lagt fram á síðasta þingi en afar seint svo að ekki náðist að taka það á dagskrá þá.

Frumvarpið gerir ráð fyrir banni við umskurði kvenna. Það er í fimm greinum og má segja að það sé flutt í framhaldi af umræðum sem átt hafa sér stað bæði hér á landi og erlendis sem ég mun gera grein fyrir í nokkuð ítarlegu máli þegar ég fylgi greinargerð þessa frv. úr hlaði en lít nú aðeins yfir frumvarpsgreinarnar sjálfar.

Í 1. gr. er gert ráð fyrir því að hver sá sem með ásetningi eða gáleysi veldur tjóni á líkama eða heilsu stúlku eða konu með umskurði á kynfærum hennar, þ.e. með því að fjarlægja hluta þeirra, skuli sæta fangelsi allt að sex árum. Hafi verknaðurinn haft svo alvarlegar afleiðingar að bani hlýst af eða brotið er sérstaklega hættulegt vegna aðferðarinnar eða tækjanna sem notuð eru varðar brotið fangelsi allt að 16 árum. Fyrir tilraun til brots og hlutdeild í broti samkvæmt lögum þessum skal refsa samkvæmt ákvæðum III. kafla almennra hegningarlaga.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að hver sá sem er íslenskur ríkisborgari eða með lögheimili á Íslandi og fremur erlendis verknaðinn sem um getur í 1. gr. eða á hlutdeild í honum skuli sæta refsingu samkvæmt þeirri grein þótt verknaðurinn sé ekki refsiverður í landinu þar sem hann er framinn.

Í 3. gr., sem fjallar um fyrningarfrest brota, er gert ráð fyrir að um hann fari samkvæmt IX. kafla almennra hegningarlaga.

Í 4. gr. sem fjallar um tilkynningarskyldu er gert ráð fyrir því að hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hafi afskipti af málefnum barna og verði var við að stúlka hafi verið umskorin eða eigi á hættu að verða umskorin verði skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart.

5. gr. er einungis gildistökugreinin.

Á 127. löggjafarþingi var lögð fram fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. um það hvort tímabært væri að lögfesta bann við umskurði stúlkna og setja viðurlög við slíkum verknaði. Í svari ráðherrans þá kom fram að umskurður á stúlkum teldist vera líkamlegt ofbeldi en ekki læknisverk og því væri læknum óheimilt að framkvæma þennan verknað samkvæmt læknalögum. Samkvæmt refsilöggjöfinni ætti umskurður stúlkna því að falla undir líkamsmeiðingarákvæði almennra hegningarlaga og vera þá skilgreindur sem brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrár, barnaverndarlögum og lögum um réttindi sjúklinga. Virðulegi forseti. Ég spyr: Hvað tryggir að slík túlkun yrði viðhöfð kæmi það til að slíkt umskurðarmál kæmi upp á yfirborðið á Íslandi sem enn hefur sem betur fer ekki gerst?

Í umræðunum fyrir tveimur árum kom fram að í fortakslausu banni við umskurði stúlkna fælist ákveðin yfirlýsing og sagði hæstv. ráðherra, Jón Kristjánsson, að hann teldi ekkert því til fyrirstöðu að skoða hvort slíkt bann ætti að leiða í lög. Slíkt bann væri raunar í samræmi við ákvæði samnings SÞ um réttindi barnsins sem lögfestur var á Íslandi árið 1992 en þar er kveðið á um að aðildarríki skuli gera allar þær ráðstafanir sem vænlegar eru til árangurs og við eiga í því skyni að ryðja úr vegi hefðum sem eru skaðlegar heilbrigði barna og enn fremur að aðildarríki skuli gæta þess að ekkert barn sé látið sæta pyntingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Þá er það alveg ljóst að umskurður stúlkubarna stríðir einnig gegn mannréttindasáttmála Evrópu og samningi frá 1992 um afnám allrar mismununar gagnvart konum. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur hvatt aðildarríki sín til að taka skýra afstöðu gegn þessum verknaði og Evrópuþingið hefur skorað á aðildarþjóðirnar að lögfesta refsiákvæði gegn þeim sem framkvæmir slíka aðgerð.

Niðurstaða Evrópuþingsins er sú að umskurður stúlkna sé í raun limlesting og að á þeirri forsendu beri að vinna gegn honum, enda felur aðgerðin í sér brottnám hluta kynfæra og getur haft mjög alvarlegar afleiðingar, jafnvel leitt til dauða.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur einnig vakið máls á því hvort ekki skuli beita þær þjóðir þvingunarúrræðum sem stunda umskurð á stúlkum. Fjárhagsstuðning til þjóðanna mætti t.d. skilyrða á ákveðinn máta, mögulega gegn því að þær samþykki að styðja aðgerðir gegn umskurði stúlkna.

Frú forseti. Umskurður er afar frumstæður verknaður sem á sér djúpar rætur og hefur tíðkast um aldir. Þótt algengt sé, bæði hér á landi og annars staðar, að siðurinn sé tengdur við íslam er sannleikurinn sá að hann er ekki bundinn við nein ákveðin trúarbrögð og er reyndar alls ekki trúarleg athöfn heldur miklu frekar félagsleg athöfn eða samfélagsleg venja. Umskurður stúlkna er ekki síður tíðkaður í löndum þar sem þorri fólks telst til kristinnar trúar eins og í Eþíópíu og Kenýa en talið er að hann eigi rætur að rekja til Afríku og þar mun hann vera útbreiddastur í dag. Ekki eru til margar áreiðanlegar rannsóknir á útbreiðslu umskurðar á stúlkum en hann er enn framkvæmdur, að því að talið er, í 28 Afríkulöndum og að einhverju leyti í Indónesíu, Sri Lanka, Malasíu og Indlandi, í Egyptalandi, Óman, Jemen, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og sömuleiðis hjá frumstæðum ættbálkum Suður-Ameríku.

Samtökin Amnesty International áætla að um 135 millj. núlifandi kvenna og stúlkna í heiminum hafi þolað þessar misþyrmingar á kynfærum sínum og að um 2 millj. stúlkubarna séu umskornar á hverju ári. Það þýðir, virðulegi forseti, um 6 þús. stúlkur á dag. Umskurður er yfirleitt framkvæmdur á ungum stúlkum, allt frá sjö daga gömlum en algengast er að þær séu á aldrinum frá fjögurra til 14 ára. Athöfnin er ævinlega framkvæmd við frumstæðar aðstæður og á rætur í frumstæðum hugmyndum um konur og kvenlíkamann. Bágbornar efnahagslegar og félagslegar aðstæður kvenna viðhalda vanþekkingunni og hindurvitnunum. Meðal þeirra skýringa sem gefnar eru fyrir verknaðinum er að hann eigi að tryggja meydóm, bæla niður náttúrulega kynhvöt og koma í veg fyrir lauslæti og samkynhneigð, auk þess sem umskurður er sagður tryggja konum farsælt hjónaband, frjósemi og barneignir.

Það er umdeilanlegt hvort orðið umskurður er heppilegt yfir þennan verknað því það dregur ekki fram alvarleika hans sem er, eins og hefur komið fram í máli mínu, virðulegi forseti, misþyrming, afskræming eða limlesting. Einnig má deila um hvort orðið sé hreinlega villandi. Það gæti mögulega talist vera það þar sem það er einnig notað yfir umskurð drengja sem er allt önnur aðgerð og miklum mun skaðlausari.

[10:45]

Umskurður stúlkubarna tengist mismunandi siðvenjum. Hvernig þær eru fer eftir löndum. Ákveðinn heiður virðist alltaf tengdur verknaðinum og því meiri eftir því sem umskurðurinn er meiri. Umskurði fylgir mikill líkamlegur og sálrænn sársauki, ör, blöðrur og bólgur. Eftirköstin eru alvarleg og geta komið fram í bráðalosti, sýkingum, skemmdum í þvagrás, örmyndun, stífkrampa, blöðrubólgu, blóðeitrun, HIV-smiti og lifrarbólgu B. Til lengri tíma litið getur aðgerðin orsakað langvarandi og síendurteknar sýkingar í þvagrás og leggöngum, ófrjósemi, æxla- og kýlamyndanir, kvalafull taugaæxli, vaxandi erfiðleika við að hafa þvaglát, tíðaverki, uppsöfnun tíðablóðs í kviðarholi, sársauka við samfarir, kyndeyfð, þunglyndi og dauða. Þá getur umskurður einnig tvöfaldað hættuna á að konur deyi af barnsförum og margfaldað hættuna á að börn fæðist andvana.

Af þeim lýsingum, virðulegi forseti, sem hér eru upp taldar og eru að mestu leyti fengnar í gegnum rannsóknir sem hægt er að kynna sér á vefnum sést að um afskaplega alvarlegar afleiðingar er að ræða. Þess má geta að í þeim löndum þar sem umskurður tíðkast eru spítalar sem gera fátt annað en að fást við afleiðingar af umskurði stúlkubarna. Alþjóðastofnanir hafa af þessum orsökum blásið síðustu árin til herferðar gegn umskurði og þau hafa gert m.a. út sendifulltrúa í þeim tilgangi að fræða fólk um allan heim. Þá hafa þau einnig stutt samtök, t.d. í Afríku, sem berjast gegn umskurði. Nýlegar kannanir hafa sýnt að þessi áróður er farinn að skila árangri þótt ekki sé kannski í miklum mæli enn sem komið er. Það virðist vera að koma í ljós núna í sumum þorpum í Afríku þar sem tekin hefur verið sameiginleg ákvörðun um að leggja þessa hefð af en viðhalda engu að síður hátíð sem er kannski svipuð fermingu hér hjá okkur. Slík hátíð hefur venjulega verið haldin áður en umskurðurinn er framkvæmdur.

Það hefur verið reynt að hafa áhrif á þá sem sjá um að fremja verknaðinn og einnig á foreldra með því að koma því á framfæri að menntaðir menn kjósi fremur óumskornar konur og gera þannig eftirsóknarvert að láta ekki umskera stúlkubörn. Þessi vinna er afar erfið og skilar sér hægt þar sem mikill samfélagslegur þrýstingur er á að umskurður stúlkna sé framkvæmdur þar sem slíkt hefur tíðkast.

Virðulegur forseti. Hvers vegna að flytja frv. á borð við þetta hér á Íslandi sem er svo fjarri öllum þessum löndum sem um ræðir? Jú, það má segja að í kjölfar aukins fjölda innflytjenda frá löndunum þar sem umskurður tíðkast hafi þörf fyrir lagasetningu sem bannar verknaðinn aukist í öllum löndum Evrópu. Vitað er að verknaðurinn hefur viðgengist í Danmörku, Bretlandi, Frakklandi, á Spáni, í Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu og því gæti þess verið skammt að bíða að siðurinn bærist hingað til lands. Það hefur rekið á eftir lagasetningu af þessu tagi í Evrópulöndum að stúlkubörn hafa látist í kjölfar aðgerðar. Í Bretlandi voru t.d. sett ákvæði í lög 1985 um bann við hvers konar umskurði eða brottnámi kynfæra stúlkna en ekki fyrr en eftir að þrjár stúlkur höfðu dáið í kjölfar umskurðar. Í Bretlandi hefur þó aldrei verið refsað samkvæmt ákvæðinu en þó nokkrar ákærur gefnar út.

Frú forseti. Þegar ég var að afla gagna í greinargerð með þessu frv. komst ég að því að frv. lá fyrir danska þinginu sem bannar hvers konar umskurð á kynfærum stúlkna sem hafa danskan ríkisborgararétt eða eiga lögheimili í Danmörku. Hvar það mál stendur nákvæmlega núna er mér ekki kunnugt en ég tók mið af því frv. við samningu þessa, að viðbættum sérákvæðum sem varða fyrningu sem ég setti inn í 3. gr. þessa frv. Kostur við það að flytja mál af þessu tagi hér á landi núna er að það er útlátalaust fyrir okkur að gera það á meðan það virðist fjarlægur möguleiki að mál af þessu tagi komi upp hér á landi. Ég held að það skipti verulegu máli að við hugleiðum það efni sem hér er fjallað um því að það gefur okkur sannarlega tækifæri til að fyrirbyggja slíkan verknað áður en skaðinn skeður. Það væri jafnvel erfiðara fyrir okkur að fást við lagasetningu sem þessa eftir að einhver dæmi um verknaðinn hefðu komið upp. Eftir því sem sérlög sem banna umskurð verða algengari verður erfiðara fyrir þjóðir að viðhalda þessari fornu hefð sem veldur tjóni á lífi, líkama og andlegri heilsu og líðan barna. Það er því að mínu mati og okkar flutningsmanna, sem eru ásamt mér Steingrímur J. Sigfússon og Þuríður Backman, hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, skylda Íslendinga í samfélagi þjóðanna að leggja sitt af mörkum til að þessi hefð verði aflögð og komið í veg fyrir limlestingu fjölda stúlkubarna.

Verði frv. að lögum er það fyrirbyggjandi aðgerð og skýr yfirlýsing um stuðning Íslendinga við baráttuna gegn þessum hroðalegu limlestingum og mannréttindabrotum sem ég hef nú lýst.

Frú forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbrn.