Bann við umskurði kvenna

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 10:56:35 (6595)

2004-04-23 10:56:35# 130. lþ. 101.13 fundur 198. mál: #A bann við umskurði kvenna# frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[10:56]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. framsögumanni fyrir ítarlega greinargerð og ekki síður fyrir frumkvæði í þessu alvarlega máli og vinnu hennar við að kynna það og vekja þjóðina til umhugsunar. Ég tel að í hugum flestra sé málið okkur svo fjarlægt að mörgum finnist það ekki eiga erindi í íslenska löggjöf, það komi okkur ekkert við, sé aðallega vandamál hjá þróunarlöndunum, og við ættum bara ekkert að vera að skipta okkur af því, þetta sé þeirra mál, tengist trú þeirra. Nú hefur það hins vegar sýnt sig að fjöldi innflytjenda frá þeim löndum þar sem umskurður stúlkubarna tíðkast hefur aukist í Evrópu, á Norðurlöndunum og þessar þjóðir, hvort sem þær eru kristnar eða íslamskar eða hvaða trúarbrögð svo sem þau stunda, flytja hefðina með sér. Þó að hún tengist ekki trú hvers kynstofns sem þetta stundar, heldur sé eingöngu félagsleg athöfn er þetta fyrir margar þjóðir rétt eins og fermingin er hjá okkur, eða var hjá okkur, hugsanlega athöfn hjá sumum að taka stúlkubörnin í tölu fullorðinna eða að henni fylgi þessar fornu rætur að stúlkubarnið er eign föður síns, verður eign eiginmannsins og þar með er þessu viðhaldið í nútímanum. Sá hugsunarháttur fylgir þessum innflytjendum þó svo að þeir séu búsettir utan heimalandsins.

Þar sem ég hef kynnt mér þessi mál hef ég einnig séð að þar sem umskurður er tíðkaður hafa þær konur --- þetta eru allt konur --- sem fremja verknaðinn ákveðinn status í samfélaginu. Það er ákveðin virðingarstaða. Þessi fjöldi kvenna er mikill og það er ekkert auðvelt að leggja af siðinn og koma þeirri breytingu inn í heilu samfélögin að þessar konur eigi ekki lengur að hafa virðingarstöðu og upplýsa að það sem þær hafi verið að gera verði ólöglegt og jafnvel glæpsamlegt. Auðvitað er þetta félagslegt vandamál, það þarf að fara inn með mikla kynningu, það þarf að finna þeim konum sem þetta stunda annað hlutverk þannig að virðing þeirra viðhaldist innan hvers samfélags. Þetta er hluti af stórri mynd þar sem skiljanlega er líka verið að verja stöðu þessara kvenna. Þetta er frumstætt viðhorf og maður vonar að með betri efnahagslegri stöðu þeirra þjóða þar sem þetta tíðkast, meiri velsæld og hagsæld aukist jafnrétti og félagslegt réttlæti og siðurinn leggist af. Það mun taka mjög langan tíma og það er ekki hægt að bíða eftir því, heldur verðum við að gera öllum ljóst hve alvarlegur veruleikinn er. Þetta er misþyrming á stúlkubörnum sem veldur mikilli þjáningu og varir ekki bara þá stund sem athöfnin tekur heldur fylgir þeim alla ævi og getur valdið því síðar á ævinni, ef stúlkurnar hreinlega látast ekki af þessum sökum --- margar deyja í kjölfarið af sýkingum --- að margar þeirra deyja við fæðingu barna sinna.

Ég vil bara ítreka það, frú forseti, að ég tel að þetta frv. um bann við umskurði kvenna sé mjög mikilvægt. Það er mikilvægt að við afgreiðum það sem lög frá Alþingi hið fyrsta sem fyrirbyggjandi aðgerð því það mun koma að því hjá okkur eins og á Norðurlöndunum að umskurn á stúlkubörnum verður framkvæmd hér á landi og þá er miklu heppilegra að vera búin að gefa út þau skilaboð að þetta verði ekki liðið og að vita þá hvernig eigi að taka á málinu. Eins og segir í 4. gr. er hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður var við að stúlka hafi verið umskorin eða eigi á hættu að verða umskorin skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. Þetta ákvæði er skýr skilaboð til allra þeirra sem vinna með börn. Ég tel að við eigum að vera undir þetta búin og að það sé betra að koma löggjöfinni á fyrr en seinna því að við munum lenda í þessu eins og aðrar þjóðir.