Bann við umskurði kvenna

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 11:03:12 (6596)

2004-04-23 11:03:12# 130. lþ. 101.13 fundur 198. mál: #A bann við umskurði kvenna# frv., VF
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[11:03]

Valdimar L. Friðriksson:

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með þetta frv. er liggur fyrir um bann við umskurði kvenna. Ég er þeirrar skoðunar að það sé orðið tímabært, því miður liggur mér við að segja, á Íslandi. Ég tek undir með þeim hv. þm. sem hafa talað í þessu máli og tek sérstaklega undir þá hugmynd hv. þm. Þórunnar Sveinbjarnardóttur að það ætti að sjálfsögðu að verða hluti af utanríkisstefnu okkar að vinna að banni við umskurði á kynfærum kvenna.

Það hefur jafnframt komið fram að vandamálið sé komið til Norðurlandanna og ég spyr: Ætli það sé ekki hreinlega komið til Íslands líka? Hvað vorum við að upplifa í síðustu viku? Ung kona af erlendu bergi brotin var lamin þar sem hún vildi ekki samþykkja að giftast frænda sínum að kröfu föður síns. Þessar venjur og hefðir sem í huga okkar eru a.m.k. gjörsamlega úreltar og eru að sjálfsögðu ekkert annað en kúgun eru komnar til Íslands þannig að þetta frv. er vissulega orð í tíma töluð og bráðnauðsynlegt að samþykkja það sem fyrirbyggjandi aðgerð.

Ég er einn af þeim sem hafa lesið Eyðimerkurblómið eftir Waris Dirie. Margoft þurfti maður að leggja bókina frá sér. Það er hreint með ólíkindum að mönnum skuli detta í hug á þessari öld að umskera börn sín, stúlkubörn, og í þeirri bók kemur skýrt fram að höfundur lendir í því fjögurra ára gömul að það er móðirin sem heldur henni meðan einhver flökkukona umsker hana með glerbroti. Ég efast um að þetta sé með fullum vilja móðurinnar og ég leyfi mér að efast um í dag að þetta sé það sem ungir karlmenn vilja, að þeir vilji fá tilvonandi konur sínar umskornar. Kannski þarf þessi kynslóð hreinlega að deyja út sem sinnir umskurðinum en það er alveg skýrt í mínum huga að þetta eru orð í tíma töluð og að sjálfsögðu á að keyra þetta frv. áfram og gera það að lögum. Við getum þannig m.a. orðið fyrirmynd annarra.