Kvennahreyfingin á Íslandi

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 11:13:04 (6600)

2004-04-23 11:13:04# 130. lþ. 101.14 fundur 199. mál: #A kvennahreyfingin á Íslandi# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[11:13]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Þáltill. sú sem hér liggur fyrir á þskj. 202 hefur verið flutt áður í þingsölum. Við erum tvær, flm. ásamt mér er hv. þm. Þuríður Backman.

Tillögutextinn gengur út á það að Alþingi álykti að fela félmrh. að stuðla að bættu starfsumhverfi kvennahreyfingarinnar og annarra hópa sem vinna að jafnari stöðu kynjanna á Íslandi. Það verði m.a. gert á eftirfarandi hátt:

a. Stofnaður verði sjóður með lið í fjárlögum í þeim tilgangi að styrkja hvers konar starf félagasamtaka, hópa og einstaklinga sem miðað getur að jafnari stöðu kynjanna. Hluta sjóðsins verði varið til þess að tryggja þátttöku sömu hópa í alþjóðlegu starfi.

b. Jafnréttisfulltrúum eða öðrum starfsmönnum ráðuneyta verði falið að koma á beinum tengslum fagráðuneyta og þeirra samtaka, hópa og einstaklinga sem innan starfssviðs hvers ráðuneytis vinna að jafnari stöðu kynjanna á hverjum tíma.

Ég talaði fyrir þessu máli, frú forseti, á síðasta löggjafarþingi. Málið varð þá ekki útrætt en tillögunni var engu að síður vísað til félmn. til umfjöllunar og þar var hún send til umsagnar. Það er kannski meginmálið í þessari framsögu minni núna að fara í örfáum orðum yfir þær umsagnir sem bárust.

Þeir aðilar sem sendu umsögn til nefndarinnar voru Bandalag háskólamanna, jafnréttisnefnd Háskóla Íslands, jafnréttisráðgjafinn í Reykjavík, Jafnréttisstofa, Kvenfélagasamband Íslands, Kvennakirkjan, Kvenréttindafélag Íslands og félmrn. Það má segja að allir þessir aðilar hafi lýst yfir ánægju og stuðningi við tillöguna utan félmrn. sem taldi hana ekki tímabæra vegna þess hve lítil reynsla væri komin á lögin um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000.

[11:15]

Það var auðvitað í ljósi hinna jákvæðu undirtekta sem ég taldi fulla ástæðu til að endurflytja málið, koma því aftur inn í farveg þingsins þannig að nefndarmenn fengju tækifæri til að taka endanlega afstöðu til þess. En mig langar að víkja í örfáum orðum að umsögn félmrn. sem send var nefndinni og er dagsett 29. nóvember 2002.

Ég sagði áðan að félmrn. hefði komist að þeirri niðurstöðu að tillagan væri ekki tímabær vegna þess hve lítil reynsla væri komin á jafnréttislögin. Í umsögn nefndarinnar kemur fram að ekki var búið að skila niðurstöðu þeirrar jafnréttisáætlunar sem þá var í gildi. Nú hefur það hins vegar gerst, virðulegi forseti, að hæstv. félmrh. talaði einmitt fyrir nýrri jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir örfáum dögum í þinginu. Hvað kom þá í ljós? Jú, það kom í ljós að fyrri jafnréttisáætlun hafði ekki náð tilætluðum árangri, þ.e. ráðuneytið og stofnanir okkar höfðu ekki staðið sig nægilega vel að mati hæstv. ráðherra í þessum efnum. Það var tekið fram í máli hæstv. ráðherra ef ég man rétt að sjö ráðuneyti hefðu haft færri konur í áhrifastöðum en þegar jafnréttisáætluninni var komið á laggirnar. Hæstv. ráðherra hnykkir á því í framsöguræðu með nýju jafnréttisáætluninni að betur megi ef duga skuli.

Ég tel að þáltill. af því tagi sem hér er flutt fari afskaplega vel saman með nýju jafnréttisáætluninni og að hún geti verið virkilega öflugt tæki í baráttunni fyrir því að koma á jafnrétti. Ég mæli með því að menn skoði þessa tillögu núna í ljósi þess sem fram hefur komið á síðustu vikum og mánuðum varðandi jafna stöðu kvenna og karla í samfélaginu. Það er auðvitað mikilvægt þegar við skoðun þær stofnanir sem sinna jafnréttismálum hvað mest --- þar er náttúrlega Jafnréttisstofa efst á blaði og félmrn. segir í umsögn sinni að Jafnréttisstofa, stofnun sem hafi nýverið komið til sögunnar, hafi umfangsmikið starf, eigi að hafa eftirlit með framkvæmd laganna og eftirlit með því að markmið laganna náist. Þegar maður skoðar svo umsögn Jafnréttisstofu frá 10. desember 2002 kemur í ljós að hún telur að málaflokkurinn eigi undir högg að sækja og að tillaga af því tagi sem hér er flutt komi til með að geta orðið lóð á vogarskálarnar í því að efla starfið. Mig langar til að vitna beint í umsögn Jafnréttisstofu en þar segir, með leyfi forseta:

,,Hlutur félaga, hópa og samtaka hefur verið mjög takmarkaður`` --- þ.e. í alþjóðlegu starfi á sviði jafnréttismála sem verið er að fjalla um í umsögninni --- ,,þar sem að fjármagn hefur skort til þess að þau geti tekið þátt. Rétt er einnig að geta þess að algengt er að til okkar [þ.e. Jafnréttisstofu] leiti þessir aðilar til þess að fá fjárhagsstuðning vegna þessa, en hjá Jafnréttisstofu er ekkert fjármagn til slíks.``

Það kemur sem sagt fram, virðulegi forseti, í umsögn Jafnréttisstofu að sjóður af því tagi sem tillagan gengur út á væri sannarlega af hinu góða, það sé full þörf á honum enda hafi Jafnréttisstofa enga möguleika á að veita nokkurn fjárhagsstuðning til sjálfstæðra aðila sem vilja taka þátt í alþjóðlegu samstarfi á sviði jafnréttismála. Þykir mér þessi umsögn vega afar þungt og sömuleiðis umsögn Jafnréttisstofu við b-lið þáltill. en þar segir að Jafnréttisstofa telji hlutverk jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna hingað til hafa verið frekar óskilgreint og jafnvel breytilegt eftir ráðuneytum. Jafnréttisstofa lýsir því reyndar yfir að hún hafi haft náið og gott samstarf við jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna en lýsir því jafnframt að þáltill. eins og hún er orðuð sé í anda samþættingar sem sé eitt meginviðfangsefni ríkisstjórnarinnar á sviði jafnréttismála. Ég endurtek, virðulegi forseti, að ég tel þessa umsögn Jafnréttisstofu vega afar þungt í þessu máli og það sama má reyndar segja um fleiri umsagnir, t.d. umsögn Háskóla Íslands sem samin er af jafnréttisnefnd háskólans. Hún segir svo að óyggjandi er að fjárskortur standi íslensku kvennahreyfingunni fyrir þrifum og komi beinlínis í veg fyrir að sú þekking og sá mannauður sem þar er nýtist sem skyldi, bæði í alþjóðlegu samstarfi og á innlendum vettvangi. Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands telur að skilgreina þurfi og samræma starfssvið og starfshlutfall jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna nánar þannig að þeir hafi forsendur til að sinna jafnmikilvægu verkefni og tillagan gerir ráð fyrir þannig að þar er afar jákvæður tónn líka.

Sama má segja um Kvenfélagasamband Íslands sem tekur það fram að víða erlendis hafi frjáls félagasamtök myndað heildarsamtök og hafi þá afl til að mynda þrýstihópa um ýmis baráttumál sem horfa til heilla fyrir almenning. Eitt af þeim baráttumálum er einmitt jafnréttismálin og það skiptir verulegu máli að okkur takist að mynda heildarsamtök þessara hagsmunaaðila. Þó að vissulega gæti aukins samstarfs í þessum geira er ekki þar með sagt að við séum komin svo langt að heildarsamtök hafi verið stofnuð.

Í umsögn jafnréttisfulltrúa Reykjavíkurborgar er afar fróðlegt yfirlit yfir það sem jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar hefur borist af erindum en þar er talað um að á hverju ári komi 15--20 styrkumsóknir frá margs konar aðilum sem beinlínis eru að leita fjármagns og stuðnings til að hrinda í framkvæmd verkefnum, afla þekkingar eða sinna með einhverjum hætti betur þörfum á sviði jafnréttismála. Það er alveg greinilegt, frú forseti, að þörfin fyrir sjóð af því tagi sem a-liður þáltill. fjallar um er afar brýn. Það staðfestist í þessum umsögnum okkar.

Ég minni líka á það hér, frú forseti, að við erum formlegir undirritunaraðilar að Árósasamningnum sem fjallar um grundvallaratriði í starfsemi frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfismála. Það er reyndar þrautin þyngri að fá þann samning fullgiltan hér á landi en ég tel að grundvallar\-atriðin í þeim samningi séu svipuð og grundvallaratriðin í þeirri þáltill. sem hér um ræðir. Það sama má segja um það hvernig Evrópuráðið, Evrópusambandið og SÞ hafa starfað á undanförnum árum. Þar hefur verulega aukist skilningur á mikilvægi frjálsra félagasamtaka í starfi lýðræðisþjóðfélaga og það skiptir verulegu máli að mati þessara aðila að þessir hópar hafi starfsskilyrði sem geri það að verkum að þeir geti tekið virkan þátt í mótun stjórnarstarfs, í mótun lýðræðis viðkomandi landa. Ég tel verulega mikils virði að við samþykkjum þessa tillögu, að við komum henni alla leið í gegnum kerfi okkar hér. Ég tel að þær hugmyndir sem kvikna í grasrótinni séu oft þess eðlis að þær þurfi ekki nema örlitla aðhlynningu til að bera góðan ávöxt. Skoðun mín er sú að ef við leggjum rækt við að fanga slíkar hugmyndir megi skapa það umhverfi sem þarf til að kvennahreyfingin og stjórnvöld í sameiningu geti í raun jafnað stöðu kynjanna. Það er það sem þetta mál snýst um. Það skiptir okkur máli að hreyfingarnar úti á akrinum séu virkar, þær starfi með okkur og við gerum okkur grein fyrir því að við erum að vinna í sama liði.