Kvennahreyfingin á Íslandi

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 11:23:44 (6601)

2004-04-23 11:23:44# 130. lþ. 101.14 fundur 199. mál: #A kvennahreyfingin á Íslandi# þál., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[11:23]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Hér er vissulega á ferðinni hið merkilegasta mál sem er fróðlegt að ræða á Alþingi um leið og við ræðum önnur mál sem snerta jafnrétti kynjanna og stöðu kvenna, bæði hérlendis og erlendis. Rétt áðan fór líka fram mjög upplýsandi umræða um tillögu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur um annað mál, um umskurð kvenna.

Hérna er hreyft við máli sem skiptir mjög miklu í öllu jafnréttisstarfi innan lands. Við höfum orðið vitni að því á undangengnum mánuðum og missirum að eiginlega hafi hvorki gengið né rekið í því meginverkefni jafnréttismála á undanförnum árum að jafna laun kynjanna. Því fer fjarri að þau mál séu viðunandi. Það er verulega mikill launamunur á milli kynjanna á Íslandi. Það vita allir og það hefur gengið illa að jafna þennan mun. Í þessum launamun felast skýr og klár mannréttindabrot. Um það blandast engum hugur. Við ræddum einmitt fyrr í vetur tillögu hv. varaþingmanns Vinstri grænna, Atla Gíslasonar, um aðgerðir og um leynd og ekki leynd á launabókhaldi til að komast að því hvernig þessum málum er virkilega háttað. Það er þó önnur umræða.

Þessi þáltill. lýtur að því að efla grasrótarstarfið. Það er það sem skiptir máli. Upp úr grasrótinni koma klárlega þeir sprotar sem duga til að breyta hlutunum og það þarf að virkja það afl sem felst í grasrótinni eins og segir í till. til þál. um bætt starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna, enda felast innan þess ramma hin ýmsu frjálsu félagasamtök, eins og nefnd eru í greinargerðinni, Femínistafélag Íslands, Bríet, Kvennakirkjan og fleiri öflugir aðilar sem hafa sprottið upp á síðustu árum og hafa tekið við því grasrótarstarfi sem fyrir rúmum tveimur áratugum átti sér stað innan Kvennalistans, hinnar stórmerkilegu stjórnmálahreyfingar sem á þeim tíma breytti virkilega öllu umhverfi hvað varðaði stöðu kynjanna og hefur án nokkurs vafa orðið til þess að skila mörgum góðum konum inn á Alþingi Íslendinga. Við höfum þó einmitt á síðustu árum séð öfugþróun þar líka. Í staðinn fyrir að vera nokkuð jafnt með kynjunum á löggjafarsamkomunni og í ríkisstjórn, eins og annars staðar á Norðurlöndunum, er þetta hlutfall miklu lægra hérna, miklu nær því að vera 30% á Alþingi eða fyrir neðan það og enn þá minna í ríkisstjórn. Ég tala ekki um að þegar kastljósinu var varpað á fjölda kvenna í stjórnum fyrirtækja rak marga í rogastans enda telst það til algjörra tíðinda og undantekninga ef konur eru í stjórnum stærri fyrirtækja hérlendis og eiginlega hvers konar fyrirtækja. Það er tekið eftir því og þykir algjör viðburður ef svo er þannig að það er eiginlega sama hvort drepið er niður fæti í stjórnmálalífinu eða viðskiptalífinu, það vantar mikið upp á til þess að hægt sé að tala um að við nálgumst það takmark sem við settum okkur fyrir fjöldamörgum árum og öll nútímasamfélög sem eru grundvölluð á lýðræði, jafnrétti, réttlæti og sanngirni hvers konar hljóta að hafa sem eitt meginmarkmið sitt að ná.

Í tíð núverandi ríkisstjórnar síðustu 8--9 árin hefur ákaflega lítið gerst í þessum málum. Vissulega voru sett lög um fæðingarorlof sem voru mikið framfaraskref fyrir jafnréttismál á Íslandi og er það ljómandi vel en það sem hér er lagt til, að stofnaður verði sjóður með lið á fjárlögum í því skyni að styrkja hvers konar starf félagasamtaka og hópa og einstaklinga sem miðað geta að jafnari stöðu kynjanna, er algjört grundvallaratriði til að efla grasrótarstarfið og fá út úr því það sem hægt er að fá.

Frjáls félagasamtök eru gríðarlega mikilvæg í öllum lýðræðissamfélögum og þaðan koma hugmyndirnar, hvatinn og aflið til breytinganna og þaðan á það að koma. Við höfum fjölda, eins og hefur komið fram í umræðunni, öflugra félagasamtaka á sviði jafnréttismála sem eru svo sannarlega til þess bær að bera sterkar öldur með sér inn í jafnréttisumræðuna og verða til þess að breyta hlutunum þannig að við hrökkvum úr þeim bakkgír sem við virðumst vera í um þessar mundir og komumst aftur á eitthvert skrið í jafnréttisumræðunni þannig að eftir verði tekið. Við þurfum að finna fyrir einhverjum raunverulegum breytingum í samfélaginu, sjá raunverulegan árangur í því að jafna laun kynjanna, jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði, í stjórnum fyrirtækja og í þátttöku í stjórnmálum. Þeir sem þekkja til í starfi stjórnmálaflokkanna vita mætavel að til muna færri konur en karlar eru virkar í grasrótar- og ungliðastarfi flokkanna. Það er algengara að karlmenn komi þar að, skjóti rótum og finni sína fjöl í starfinu, haldi áfram og fari í stjórnmálin sem atvinnumenn ef svo má segja. Það er partur af þeirri afturför sem við höfum verið í á undanförnum árum. Við þurfum að virkja grasrótina. Á því er ákaflega brýn þörf og leikur enginn vafi á því.

Það er komin reynsla á lögin frá árinu 2000 sem hér var getið um en félmrn. vildi ekki í umsögn sinni 2002 lýsa yfir stuðningi við þessa þáltill. um bætt starfsumhverfi fyrir kvennahreyfinguna. Þó að e.t.v. sé ekki komin full reynsla á lögin er a.m.k. komin nokkur reynsla á þau. Þau ein og sér tryggja það ekki að við náum þessu marki. Þó að þau séu til bóta og framfara að mörgu leyti ættu þau í sjálfu sér ekki að vera nein fyrirstaða þess að menn komi á fót sérstökum sjóði til að styrkja hvers konar starf bara með beinum hætti. Það straumlínulagar aðgengi grasrótarhreyfinga á sviði jafnréttismála að fjármagni hvers konar. Það er auðveldara og einfaldara. Oft er um að ræða ungt fólk sem þekkir ekki þetta styrkjakerfi og þekkir ekki aðkomuna að fjármagni, hefur enga kunnáttu til að standa í einhverri lobbýmennsku við fjárlaganefndarmenn. Það á bara að vera til sérstakur sjóður sem þessir hópar sækja fjármagn í, sækja um fjármagn til starfsemi sinnar. Þetta eru að sjálfsögðu algjörlega fjárvana samtök ungs fólks oft og á köflum þannig að það er mjög mikilvægt að þessum sjóði verði komið á fót.

Ég styð þáltill. eindregið og skora á Alþingi að veita henni brautargengi. Þetta er mikið framfaramál þar sem ekki er um að tefla háar fjárhæðir. Þetta eru litlar fjárhæðir í stóra samhenginu en stórmál fyrir framgöngu jafnréttismála á Íslandi.