Kvennahreyfingin á Íslandi

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 11:32:00 (6602)

2004-04-23 11:32:00# 130. lþ. 101.14 fundur 199. mál: #A kvennahreyfingin á Íslandi# þál., Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[11:32]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Ég vil einungis þakka góðar viðtökur hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar við þessu máli og taka undir orð hans um það að hugmyndirnar sem eiga sér stað og kvikna í grasrótinni skipta verulegu máli. Ég ítreka það bara að frjáls félagasamtök eru liður í stjórnkerfi lýðræðisríkja. Við megum ekki gleyma að við þurfum að ætla þeim pláss. Við þurfum að sýna þeim fram á að það sé pláss fyrir þau í stjórnkerfi okkar.

Það hefur allt of oft viljað brenna við að stjórnvöld hér á landi ali á illdeilum við frjáls félagasamtök þó að það sé auðvitað ekki alltaf og megi ekki fullyrða að það sé í flestum tilfellum. Það hefur samt gerst, og það hefur gerst allt of oft, að frjáls félagasamtök upplifa sig ekki sem hluta af stjórnkerfi landsins, þau upplifa ekki að þau eigi greiðan aðgang að stjórnvöldum eða málefnunum sem eru á þeirra sviði. Það skiptir verulegu máli að þarna verði breyting á og sérstaklega kannski í þessum málaflokki sem hefur átt undir högg að sækja, málaflokki sem við höfum verið að takast á um núna í auknum mæli á síðustu missirum og vikum. Það skiptir verulegu máli að stjórnvöld sýni vilja í þessum efnum til að félagasamtökin komist hér að borði og það sé tryggt að þeirra góðu hugmyndir nái inn á borð stjórnmálanna, á borð ákvarðanatökunnar, þannig að við getum upplifað það að við séum hér saman um að reka eins göfugt og gjöfult samfélag og hugsast getur.