Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 11:40:57 (6608)

2004-04-23 11:40:57# 130. lþ. 101.15 fundur 200. mál: #A stækkun friðlandsins í Þjórsárverum# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[11:40]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Ég mæli nú í þriðja sinn, ef ég man rétt, fyrir þáltill. sem gengur út á það að Alþingi skori á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að mörkum friðlandsins í Þjórsárverum verði breytt og það stækkað þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarkanna. Einnig gerir tillögutextinn ráð fyrir því að áætlun verði gerð um friðun Þjórsár frá mörkum friðlandsins í Þjórsárverum til suðurs að Sultartangalóni.

Aðdragandi þessa máls er langur og strangur og ég fer ekki út í að rekja hann hér í smáatriðum. Ég hef rakið hann áður, eins og ég segi, þegar ég hef talað fyrir þessu máli. Ég tel ekki fullreynt varðandi þessa tillögu, ég tel enn fulla ástæðu til þess að skoða möguleikann á því að stækka friðlandið í Þjórsárverum til þess að tryggja að ekki verði gert meira á svæðinu sem gæti orsakað frekari skemmdir á þessari perlu, á þessari náttúruparadís sem við eigum inni á miðju hálendinu.

Það sem ég vil gera að aðalumræðuefni, frú forseti, í þetta sinn er náttúruverndaráætlun sú sem kynnt hefur verið og lögð fram. Nú þekkjum við það, hv. alþingismenn, að við höfum til umfjöllunar náttúruverndaráætlun fyrir árin 2004--2008 sem hæstv. umhvrh. hefur lagt fram. Á þeirri lögbundnu náttúruverndaráætlun eru 14 svæði tilgreind sem unnið verði að að friðlýsa á næstu árum.

Á bak við þá náttúruverndaráætlun sem hér í þingsölum liggur er hins vegar annað plagg, náttúruverndaráætlun sem felur í sér tillögur Umhverfisstofnunar um friðlýsingar. Sú áætlun er unnin í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og hefur að geyma, ef ég man rétt, 75 svæði sem eru þess virði að mati þessara hæfustu fagaðila okkar og fagstofnana að þær verði friðlýstar.

Það vekur sérstaka athygli mína og ég fagna því ákaflega að í kaflanum um Suðurland leggur Umhverfisstofnun til að Þjórsárver og Þjórsá verði friðuð á svipuðum nótum og getið er um í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir.

Svæðislýsingin hjá Umhverfisstofnun er afar sterk og skýr. Hún fjallar um að á svæðinu sé ,,stórbrotið landslag, fjalllendi, jökull, votlendi og áreyrar. Fjölbreyttar búsvæðagerðir, mýrar, flár, flæðiengi, vötn, tjarnir og sífreri á hálendi, allt upp í 1100 m hæð``. Það sem skiptir kannski mestu máli er að yfirlýsing Umhverfisstofnunar er sú að ,,Þjórsárver eru einstætt vistkerfi á heimsvísu, enda afar tegundaríkt og eitt helsta varpland heiðagæsar í heiminum``.

Umhverfisstofnun dregur hér athygli okkar að því að við berum alþjóðlega ábyrgð í þessum efnum. Það skiptir auðvitað verulegu máli að við höfum verið að ganga á verin undanfarin ár. Við erum t.d. búin að minnka rennsli Þjórsár um sennilega 40% nú þegar og við vitum öll af þeirri vá sem steðjar að verunum enn í dag. Það er ekki búið að gefa upp á bátinn áform um að búa til Norðlingaölduveitu. Það eru enn þá áform um að setja ákveðnar upptakakvíslir Þjórsár í setlón norðaustanvert við verin. Það mundi taka ákveðið vatnsmagn frá verunum sem mögulega mundi ræna þau lífsmöguleikanum þó að það kæmi ekki í ljós fyrr en seint og um síðir, þá kannski þegar allt yrði komið í óefni og engum björgum yrði við komið.

Það er alveg ljóst að Umhverfisstofnun hefur hér hugmyndir sem byggja á sömu forsendum og við höfum lagt til grundvallar í tillögu okkar hér. Mér láðist að geta þess, frú forseti, að flm. tillögunnar ásamt mér eru allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs þannig að það er allur þingflokkurinn sem stendur á bak við þennan tillöguflutning.

Það er getið um það í athugasemdum Umhverfisstofnunar í stóru náttúruverndaráætluninni sem þar hefur verið unnin að tillaga stofnunarinnar sé tvíþætt, annars vegar leggur stofnunin til að friðlandið verði stækkað þannig að sem mest af gróðurlendi Þjórsárveranna lendi innan friðlýsingarmarkanna, og hins vegar er lagt til að Þjórsá, frá núgildandi friðlýsingarmörkum að Sultartangalóni ásamt nærliggjandi svæðum, verði friðlýst. Það kemur fram í athugasemdum Umhverfisstofnunar og í tillögu Umhverfisstofnunar að þörf sé á því að það gróðurlendi sem tilheyrir verunum náttúrulega lendi innan friðlýsingarmarkanna.

Nú hefur komið í ljós í umræðunni upp á síðkastið að Landsvirkjun sem er sá aðili sem áformar Norðlingaölduveitu var að vinna út frá röngum hæðarpunktum á svæðinu, þ.e. lónið sem Landsvirkjun hefur hugsað sér að setja þarna upp mundi ekki lenda inni í Eyvafeni sem er eitt af gróðursvæðunum utan friðlandsins og við höfum talið að væri ógnað. Þessi niðurstaða Landsvirkjunar nú breytir hins vegar ekki því að setlónið norðaustanvert fyrir ofan verin mundi taka frá verunum ákveðið magn af vatni sem yrði fært niður í kvíslarveituvötnin þannig að við erum að tefla í tvísýnu þar ákveðnum hlutum sem við vitum ekki nægilega vel hvaða afleiðingar mundu hafa.

Með breyttum mörkum friðlandsins mundu bætast við friðlandið gróðurvinjar á borð við Kjálkaver og Loðnaver. Þau tvö ver eru bæði sögð af Umhverfisstofnun vera afar grösug svæði, mikilvægir varpstaðir og beitilönd fyrir fellistaði heiðagæsa.

Það skiptir verulegu máli í þessari umræðu, frú forseti, að við erum komin með tillögu frá Umhverfisstofnun, sem er formleg, í þessu mikla riti þeirra um náttúruverndaráætlun til ársins 2008. Þar eru staðfest þau sjónarmið sem við, hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, höfum viljað viðhafa í tillöguflutningi okkar um þetta mál. Við erum þeirrar skoðunar að í stað þess að hrófla við Þjórsárverum frekar en orðið er þurfi að endurmeta á faglegum forsendum hvar eðlileg mörk friðlandsins eigi að vera og færa þau út í samræmi við það. Við höfum fengið stuðningsyfirlýsingu frá Umhverfisstofnun og að því er virðist Náttúrufræðistofnun Íslands varðandi þetta mál okkar. Við vitum að það er mikill stuðningur úti í samfélaginu í öllum náttúruverndarsamtökum sem hafa látið frá sér heyra um málið við að þessi stækkun geti náð fram að ganga. Það skiptir okkur verulegu máli því að hér er auðvitað um mál að ræða sem er mikilvægt að sem flestir komi að. Það er gott til þess að vita að við skulum eiga þennan mikla stuðning fólks úti á akrinum.

Það má segja að Þjórsárver séu kannski mikilvægust af öllum hálendisvinjum vegna þess að þau eru svo samstæð, það er svo stórt svæði inni í miðju landsins sem okkur getur tekist --- ef við berum gæfu til --- að vernda sem heildstætt vistkerfi sem á sér kannski enga hliðstæðu í veröldinni allri, vistkerfi sem hefur alþjóðlega þýðingu fyrir fuglalíf, vistkerfi sem má segja að hýsi, eins og Jón Helgason skáld komst að orði, ,,landsins titrandi hjarta``.