Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 11:49:58 (6609)

2004-04-23 11:49:58# 130. lþ. 101.16 fundur 283. mál: #A stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[11:49]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Frú forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem er að finna á þskj. 321 en þetta er 283. mál þingsins og kemur í ljós að það hefur legið hér nokkuð lengi sem á sér eðlilegar orsakir í ljósi þess hlés sem varð á þingstörfum mínum fyrr í vetur. Þetta er till. til þál. um stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar og ég flyt hana hér ásamt með hv. þm. sem allir eiga sæti í umhvn. Alþingis. Þau koma úr öllum flokkum þingsins og eru hv. þm. Dagný Jónsdóttir, Gunnar Birgisson, Rannveig Guðmundsdóttir og Sigurjón Þórðarson.

Því má segja að hér sé til umfjöllunar tillaga sem um ríkir þverpólitísk sátt. Þetta eru allt fulltrúar í umhvn. enda er tillagan þess eðlis að hún hlýtur að flokkast undir það að vera umhverfismál þó að gert sé ráð fyrir því að hún fari á endanum til umfjöllunar í samgn. þingsins.

Tillögutextinn gengur út á það að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd með fulltrúum samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis, Vegagerðarinnar, Umferðarstofu, samtaka sveitarfélaga og samtaka hjólreiðafólks. Hlutverk nefndarinnar verði að undirbúa áætlun og lagabreytingar sem geri ráð fyrir hjólreiðum sem viðurkenndum og fullgildum kosti í samgöngumálum. Hjólreiðabrautir verði sérstaklega skilgreindar og þeim fundinn staður í vegalögum auk þess sem kveðið verði á um ábyrgð eða þátttöku ríkisvaldsins í gerð þeirra. Þannig verði komið upp sérstöku stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar sem ríkisvaldið sjái um eða taki þátt í að kosta í samstarfi við sveitarfélögin. Hjólreiðabrautakerfið skal tengja saman þéttbýlisstaði og hjólreiðastíga einstakra sveitarfélaga við þjóðvegakerfið. Einnig skal gert ráð fyrir stofnbrautum gegnum þéttbýlisstaði með svipuðu fyrirkomulagi og gildir um þjóðvegi í þéttbýli.

Samgönguráðherra leggi síðan fyrir Alþingi frumvarp í samræmi við niðurstöður þessarar nefndar sem tillagan gerir ráð fyrir að verði sett á laggirnar eigi síðar en ári eftir samþykkt tillögunnar.

Frú forseti. Tillaga þessi styðst að sjálfsögðu við hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar og þá ekki hvað síst þann þátt sjálfbærrar þróunar sem lýtur að sjálfbærum samgöngum. Sjálfbærar samgöngur byggjast á því að skipulagning og stjórn samgangna taki mið af markmiðum um sjálfbæra þróun samfélagsins og að við alla áætlunargerð sé megináhersla lögð á að leita leiða til að halda neikvæðum þáttum samgangna í lágmarki. Þannig verði við skipulagningu þéttbýliskjarna samþætt í auknum mæli íbúðarsvæði, þjónustusvæði og atvinnusvæði og frá upphafi verði gert ráð fyrir hjóla- og göngustígum í hverfum ásamt öruggum almenningssamgöngum þegar samgöngunet eru skipulögð. Varðandi hlut hjólreiða sérstaklega í stefnumörkun um sjálfbærar samgöngur þarf að huga að möguleikum samgöngukerfisins til að taka við auknum fjölda hjólreiðafólks. Því ber að leggja áherslu á hjólreiðabrautir í þéttbýli og tengingar milli þéttbýliskjarna.

Frú forseti. Þessi stefna er í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar eins og henni er lýst í útgefinni stefnumörkun stjórnvalda til ársins 2020, ,,Velferð til framtíðar -- Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi``. Það er afar mikilvægt að haft sé í huga að stefnumörkunin gengur alls ekki þvert á stefnumið okkar, heldur fylgir þeim algjörlega, stefnumið sem ríkt hefur mikil sátt um í samfélaginu og á Alþingi. Í þessari stefnumörkun segir að sjálfbærar samgöngur séu eitt af fjórum höfuðmarkmiðum samgönguáætlunar stjórnvalda.

Í nýrri stefnu fyrir Norðurlönd um sjálfbæra þróun sem var gefin út 2001 og hefur verið samþykkt á vettvangi norrænu ráðherranefndarinnar kemur fram í kaflanum um samgöngumál að þjóðum beri að stuðla að umhverfis- og heilbrigðisvænum samgönguháttum, ekki síst í þéttbýli þar sem einkum beri að styðja við almenningssamgöngur, hjólreiðar og göngu. Einnig er lögð áhersla á umferðaröryggi samfara breytingum í samgönguháttum því að öryggisleysi í umferðinni hafi letjandi áhrif á notkun þessara samgönguhátta. Þá beri sérstaklega að stuðla að hjólreiðum í stærstu bæjum og borgum Norðurlandanna með því að skapa samfelld grunnkerfi fyrir hjólreiðar. Það er einmitt það sem þessi tillaga gerir ráð fyrir, að samfellt grunnkerfi verði skapað þar sem hjólreiðastígar sveitarfélaga verði tengdir saman. Við vitum það öll sem höfum reynt að hjóla hér um höfuðborgarsvæðið að það ríkir ófremdarástand þar sem við komumst vart á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu á hjólunum okkar, jafnvel þó að hvert sveitarfélag fyrir sig hafi verið afar ötult í að gera hjólreiðafólki kleift að ferðast innan sveitarfélagsins. Þar sem við höfum tengt vegakerfi sveitarfélaganna með stofnbrautum og þjóðvegakerfi sem er á ábyrgð hins opinbera telja flm. þessarar tillögu að slíkt hið sama eigi að gilda og geti fullkomlega gilt um hjólreiðarnar, sérstaklega í því samfélagi sem við búum við í dag þar sem við höfum undirritað og samið yfirlýsingar um það að við ætlum að auka hlut sjálfbærra samgangna á landinu.

Samgönguráðherrar Evrópusambandsríkjanna hafa líka samþykkt áætlun sem miðar að því að tekið verði tillit til sjónarmiða umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar í stefnu í samgöngumálum. Ég tel að við séum hér þess vegna í fullkomnum samhljómi við það sem nágrannaþjóðir okkar eru að reyna að vinna hver heima hjá sér.

Af því sem ég hef talið upp, frú forseti, sést að þessi tillaga er í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar enda eru hér þingmenn stjórnarflokkanna sem standa að henni ásamt okkur í stjórnarandstöðunni.

Um þessar mundir stendur yfir endurskoðun á vegalögum. Þar af leiðandi ætti þessi tillaga að eiga greiða leið að borði þeirra sem um þessi mál véla en vegalögunum var síðast breytt, ef ég man rétt, á 125. löggjafarþingi með stjórnarfrumvarpi sem fjallaði um reiðvegi og girðingar. Í meðförum samgn. tók það mál nokkrum breytingum, sem var athyglisvert. Þannig lagði nefndin til í áliti sínu að hjólreiða- og göngustígar yrðu sérstaklega skilgreindir í lögunum og að sams konar heimild yrði til eignarnáms til lagningar þeirra og til lagningar reiðvega. Nefndin lagði líka til að þar sem slíkir stígar væru í þéttbýli kæmi það í hlut viðkomandi sveitarfélaga að greiða kostnað af þeim. Að öðru leyti fjallaði nefndin ekki efnislega um þýðingu hjólreiðastíga og ekki heldur þingið á þessum tíma þar sem engar umræður urðu um breytingartillögur nefndarinnar. Mér þótti það athyglisvert þegar ég fór yfir það mál. Vegna þessara breytinga er hjólreiðastíganna vissulega getið í vegalögum en það er bagalegt að ekki skuli fylgja því neinn rökstuðningur. Það má líka segja að málefni hjólreiðamanna í umferðinni og gerð umferðarmannvirkja hafi ekki verið fyrirferðarmikil við vegalagningu, hefði í öllu falli mátt vera fyrirferðarmeiri, og það má halda því fram að þótt hjólreiðastíga sé getið í vegalögunum séu þeir hálfmunaðarlausir í kerfinu. Slíkt ætti tillaga af þessu tagi að geta bætt til verulegra muna.

Á 121. löggjafarþingi var hér til umfjöllunar frumvarp um breytingu á vegalögum þar sem gert var ráð fyrir því að hjólreiðastígar yrðu teknir inn í vegalög og þar með var tekið fyrsta skrefið í þá átt að koma á samfelldu neti hjólreiðastíga. Samgöngunefndin fjallaði um það frv. og taldi ljóst að huga þyrfti að öryggi hjólreiðamanna utan þéttbýlis og frumvarpinu var vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari umfjöllunar í tengslum við endurskoðun vegalaga. Þess var óskað að Vegagerðinni yrði falið að meta kostnað við þær breytingar sem það frumvarp gerði ráð fyrir auk þess kostnaðar sem sveitarfélögin yrðu að bera. Frú forseti. Það er ekki vitað til þess að slíkt kostnaðarmat hafi farið fram og reyndi ég að ganga úr skugga um það við samningu þeirrar greinargerðar sem hér fylgir og hef ekki fundið þannig að ég tel rétt vera að slíkt mat hafi ekki farið fram þó að það hafi verið vilji löggjafarsamkundunnar á sínum tíma.

Á síðasta kjörtímabili flutti svo umhvn. Alþingis öll, að frumkvæði hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar, till. til þál. um hönnun og merkingu hjólreiðabrauta. Þeirri tillögu var vísað til samgn. og hún var send út til umsagnar vorið 2001. Ákaflega góðar og jákvæðar umsagnir bárust, frá m.a. Hjólreiðafélagi Reykjavíkur, Íslenska fjallahjólaklúbbnum, Landssamtökum hjólreiðamanna og fleiri aðilum varðandi það mál. Ég tel að við séum með mál í höndunum sem nýtur mikils stuðnings, sérstaklega þeirra sem nýta sér hjólreiðakerfið, það stígakerfi sem er til staðar í dag. Þetta er í þeirra hugum þjóðþrifamál. Það verður að skoðast eins og er að þótt hjólreiðamenn hafi fengið ágæta stíga í sveitarfélögunum í höfuðborginni og í nágrenni eru það stígar sem voru búnir til fyrir skokkara, fyrir útivistarfólk, fyrir fólk sem er að verða sér úti um holla hreyfingu, en þeir eru ekki lagðir með það fyrir augum að þeir stytti leiðina eða séu beinlínis samgöngukerfi sem geri fólki auðvelt að komast á milli staða. Þeir eru lagðir með aðra þætti í huga og það skiptir verulegu máli að við viðurkennum það þannig að hjólreiðamenn geti notað hjólin sín sem samgöngutæki ekki síður en tæki til hollrar útivistar.

Virðulegi forseti. Hjólreiðar þurfa að verða alvöruvalkostur í samgöngum okkar og ég tel þessa tillögu vera þess eðlis að hún geti gert hjólreiðum hærra undir höfði og séð til þess að hjólið verði samgöngutæki á Íslandi og hjólreiðafólk eigi þess kost að komast vandræðalaust leiðar sinnar og það án þess að valda nokkurri mengun.