Stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 12:02:35 (6611)

2004-04-23 12:02:35# 130. lþ. 101.16 fundur 283. mál: #A stofnbrautakerfi fyrir hjólreiðar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[12:02]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að vera viðstaddur og taka til máls í þessari umræðu. Það er okkur sem flytjum þessa tillögu mikils virði að hann fylgist með málinu og sé meðvitaður um grundvallaratriði þess.

Það er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðherra að það er á ábyrgð sveitarfélaga að búa til hjólreiðastígakerfi innan sveitarfélagamarka. En tillagan gengur fyrst og fremst út á að þéttbýlisstaðir séu á einhvern hátt tengdir og menn séu meðvitaðir um að fólk þurfi að nota hjól sem samgöngutæki. Eins og ég gat um í ræðu minni áðan þá komumst við á höfuðborgarsvæðinu nánast ekki á milli sveitarfélaganna á reiðhjólum af því að sá þáttur hefur verið munaðarlaus í kerfinu. Hvaða sveitarfélög eiga t.d. að sjá um að tengja hjólreiðastíga Garðabæjar og Reykjavíkur? Það hefur ekki náðst nægileg samvinna milli sveitarfélaganna í þessum efnum og þess vegna telja tillöguhöfundar að koma þurfi til samvinna ríkis og sveitarfélaga í þessum efnum.

Það er svo sem í samræmi við það sem gert er ráð fyrir í öllum þeim samgönguáætlunum sem við höfum samþykkt og samdar hafa verið á okkar vegum. Í því sambandi vil ég geta þess að með nýjustu samgönguáætluninni, þar sem hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar hefur fengið ákveðið rými og þau grundvallarprinsipp eru gild, verðum við að venja okkur á að það eru ekki bara efnahagslegu þættirnir sem skipta máli þegar reiknuð er út hagkvæmni viðkomandi framkvæmdar.

Það er umhverfislega hagkvæmt að sjá til þess að sem flestir geti komist leiðar sinnar á hjóli. Þar af leiðandi eiga þeir þættir að vega nokkuð í reikningsdæminu. Hinir félagslegu þættir og umhverfislegu þættirnir eiga að vega jafnþungt og efnahagslegu þættirnir. Það að framkvæmdin muni kosta peninga skiptir í sjálfu sér máli en ekki eitt og sér því að það verður að vegast á við aðra þætti hugmyndafræðinnar.