Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 12:07:47 (6612)

2004-04-23 12:07:47# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[12:07]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

Nauðsyn þykir að tryggja verndun vatnasviðs Þingvallavatns og vatnsins sjálfs, en vatnasvið þess er stærsta grunnvatnsauðlind á Íslandi í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Því er vernd þessarar auðlindar gegn mengun eða annarri ógn afar mikilvæg fyrir framtíðarvatnsnot og vatnsnýtingu þjóðarinnar. Hér á landi hafa ekki verið sett almenn lög um verndun grunnvatns og annars nytjavatns.

Með þessu frumvarpi er lagt til að kveða á um vernd lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess í sérstökum lögum. Lagt er til að allt svæðið frá vatnaskilum í Hengli inn í Langjökul verði sérstakt vatnsverndarsvæði og fellur þannig Þingvallavatn og mestur hluti vatnasviðs þess saman í órofa heild með hinum menningarlegu og náttúrufræðilegu minjum.

Í 2. gr. frv. eru mörk vatnsverndarsvæðisins tilgreind nákvæmlega, samanber fylgiskjal með frv. Þau eru dregin með hliðsjón af niðurstöðum rannsókna á rennsli grunnvatns Þingvallavatns og með það í huga að tryggja einnig verndun Þingvallavatns í heild.

Frumvarpið var samið undir forsjá Þingvallanefndar og er með því og frumvarpi til laga um þjóðgarðinn á Þingvöllum, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, leitast við að móta verndarstefnu á þessu svæði til frambúðar. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er ekki hluti af vatnsverndarsvæðinu. Samkvæmt áðurnefndu frumvarpi um þjóðgarðinn er Þingvallanefnd ætlað að tryggja verndun vatns, þar á meðal hluta Þingvallavatns, innan þjóðgarðsins og tryggir það að náð verði markmiðum þeirrar vatnsverndar sem felst í frumvarpi þessu.

Megintilgangur frv. er að stuðla að verndun lífríkis Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Í frv. er kveðið á um að óheimilt sé að gera nokkuð það sem spillt geti vatni eða mengað það innan verndarsvæðisins, bæði vatn á yfirborði og grunnvatn, sbr. 3. gr. frumvarpsins. Í samræmi við það setur ráðherra nánari reglur um framkvæmd vatnsverndarinnar. Í slíkum reglum er m.a. heimilt að kveða á um að jarðrask, bygging mannvirkja og borun eftir vatni, svo dæmi séu tekin, séu háð sérstöku leyfi ráðherra.

Þá er jafnframt í frv. mælt fyrir um verndun á lífríki Þingvallavatns og að þess skuli gætt að raska ekki búsvæðum og hrygningarstöðvum bleikju- og urriðastofna sem nú lifa í vatninu, sbr. 4. gr. frumvarpsins.

Þingvallavatn er sérstakt, m.a. fyrir þær sakir að það er talið eina þekkta vatnið í heiminum þar sem fyrirfinnast fjögur afbrigði af bleikju. Urriðastofn sem þreifst til langs tíma í Þingvallavatni og Efra-Sogi var einnig sérstakur. Til að tryggja að búsvæðum og hrygningarstöðvum þessara stofna verði ekki raskað skiptir miklu að vatnshæð í vatninu sé haldið stöðugri og höfð sé gát á því hvaða efni kunni að berast í vatnið. Því er lagt til að umhvrh. setji reglur um framkvæmd vatnsverndarinnar, m.a. um breytingar á vatnshæð og takmarkanir á losun úrgangsefna og um frárennsli og fráveitur í vatnið.

Þá er lagt til að bannað verði að stunda fiskrækt eða fiskeldi í eða við Þingvallavatn nema með leyfi ráðherra.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frv. og legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í umhvn.