Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 12:37:06 (6616)

2004-04-23 12:37:06# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[12:37]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu mun umhvrh. svara þeim spurningum sem til hennar var beint. En ég get ekki stillt mig um að koma í andsvar vegna þess að ég hlýt að lýsa furðu minni á yfirlýsingu þingmannsins varðandi vatnsverndarsvæðið, að umhvrh. hafi bara ekkert með það að gera hvort verið sé að reisa byggingar á jörðum. Er þetta bara almennt viðhorf þingmannsins? Það vill svo til að við erum með í umhvn. þingmál sem snýr að Skútustaðahreppi, Mývatni og Laxá. Það mundi eflaust henta mjög mörgum að byggja sumarbústaði út um allt vatnsverndarsvæðið við Mývatn. Telur þingmaðurinn virkilega að það eigi bara að vera ákvörðun landeigenda á hverjum stað hvernig þeir fari fram? Vill hann setja það í ákvörðunarvald hvers og eins? Því við vitum hve ólíkar hvatir geta verið að baki þess að leyfa fólki að fara að byggja út og suður. Og af því að ég á rætur í báðar ættir í Sléttuhreppinn, hina horfnu byggð, þá er það svo að þó þar sé ekki vatnsverndarsvæði og þar sé bara friðland, þá er ekki heimilt að byggja hvar sem fólk vill byggja, alls ekki svo að fólk geti byggt og landeigendur á jörðum sínum, þessum gömlu jörðum sem eru í eigu afkomenda. Það er bara ekki heimilt og dytti ekki nokkrum manni í hug að það ætti að vera þannig að hægt væri að drita niður húsum og byggingum út um allan Sléttuhrepp, og líki ég honum að öðru leyti í engu við svæði eins og Þingvallasvæðið eða Mývatnssvæðið.

Og af því að þingmaðurinn benti á slysið í Efra-Sogi og við erum að fjalla um það núna 40 árum seinna, hlýt ég að minna á við erum enn að. Hvað skyldu kynslóðirnar eftir 40 ár segja um gjörðir Alþingis á síðasta kjörtímabili í þeim efnum?