Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 12:41:54 (6619)

2004-04-23 12:41:54# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[12:41]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Örfá orð um málið. Ég vil fagna því eins og þeir sem hafa talað á undan mér að þetta frv. skuli vera komið fram. Það er auðvitað merkilegt út af fyrir sig hversu stór hluti lindarvatns í byggð á Íslandi er þarna saman kominn. Menn telja að það sé um þriðjungur, þannig að það er ástæða til þess að líta til þess fyrir utan það að við erum að tala um helgasta stað á Íslandi sem er Þingvallasvæðið og þjóðgarðurinn þar. En það sem vakti athygli mína þegar ég fór að skoða málið var að í umsögn fjmrn. um málið er sagt að ekki verði neinn kostnaður fyrir ríkissjóð vegna þessarar lagasetningar, eða það verði ekki séð, en samt kemur fram rétt á undan í umsögninni: ,,Auk þess verður ráðherra heimilt að ákveða takmarkanir á beit og öðrum nytjarétti innan verndarsvæðisins telji hann að sú notkun leiði til þess að vatn á svæðinu spillist.``

Það kemur fram hérna --- ég er nú ekki nógu landfræðilega kunnugur þarna --- að innan þessa svæðis eru lönd einstakra jarða, líklega þó nokkurra og það er auðvitað alveg greinilegt að komið getur upp sú staða að hefta verði notkun þessara landa að einhverju leyti, einhverja áburðarnotkun t.d., eða önnur not. Mér finnst svolítið sérkennilegt að hafa niðurstöðu fjmrn. þarna um að þetta muni ekkert kosta, ekkert af þeim takmörkunum sem verið er að lögleiða.

Mig langar þess vegna til að spyrja hæstv. ráðherra hvort farið hafi verið yfir það hvaða möguleikar gætu komið upp í sambandi við bætur eða kröfur landeigenda um bætur vegna þeirra takmarkana sem hugsanlega verða þarna í framtíðinni því að þær gætu auðvitað orðið. Ef það er t.d. niðurstaðan að bændur megi ekki setja niður bústaði, sumarhús eða önnur slík mannvirki á jörðum sínum, gætu bæturnar kannski orðið dálítið ríflegar. Ef mörgum verður neitað um að koma upp sumarhúsabyggð eða sumarhúsum, eða fara í framkvæmdir tengdar sínum búskap eða öðru slíku, gæti verið um að ræða töluverðar kröfur. Ég er ekki að koma upp til að halda því fram að það eigi að breyta þessum ákvæðum en þetta vakti athygli mína og ég spyr þess vegna hvort farið hafi verið yfir það hverju menn geta átt von á þarna og hvort verið geti í uppsiglingu í tengslum við þetta mál einhvers konar viðbrögð þeirra sem þarna eiga hagsmuna að gæta, sem gætu kannski kostað ríkissjóð umtalsverða fjármuni.

Og til umhugsunar í lokin finnst mér einhvern veginn að stundum séu þessar klásúlur úr fjmrn. þannig orðaðar að það geti ekki verið að á bak við þær liggi neinar sérstakar rannsóknir á því hvort kostnaður vegna viðkomandi frv. geti orðið mikill eða lítill.