Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:03:14 (6624)

2004-04-23 13:03:14# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:03]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég endurtek að ég tel enga ástæðu til að kveða eitthvað upp úr um það hér og nú á þessu stigi hvað varðar framtíð Steingrímsstöðvar, en það er a.m.k. svo í mínum huga að innihaldið í því frv. sem við erum að ræða er þannig að það sem mun skipta mjög miklu máli varðandi Þingvallavatn og vatnasvið þess, hreinleika þess. Megintilgangurinn með frv. er auðvitað að verja vatnið og halda því í því ástandi sem það er núna og í frv. er líka verið að tala um lífríkisverndunina. Mér finnst ég því ekki geta á þessari stundu kveðið neitt upp úr um framtíð Steingrímsstöðvar og það er mál sem þyrfti að skoða miklu betur áður en hægt er að gefa einhverjar yfirlýsingar um það.