Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:06:18 (6626)

2004-04-23 13:06:18# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:06]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel ekki að um röng skilaboð sé að ræða í kostnaðarumsögninni. Það sem ég sagði áðan var að mér finnst líklegt að ekki verði gerðar neinar sérstakar athugasemdir við núverandi búskaparhætti sem stundaðir eru á svæðinu þó að ég geti auðvitað ekki útilokað neitt á þessari stundu, en mér finnst það ólíklegt.

Varðandi frekari byggð þarf auðvitað að skoða verndarsjónarmiðin í hverju tilviki fyrir sig en ekki er hægt að útiloka að ákvæðunum verði beitt. Ég á frekar von á því að þeim verði beitt í einhverjum tilfellum. Ég veit ekki hvort það verður eitt tilfelli eða tvö eða hvað. Mér finnast það því alls ekki vera röng skilaboð sem hér eru gefin um að líklega hafi frv. ekki kostnaðarauka í för með sér. Það verður að meta í hverju tilviki fyrir sig þegar reyna fer á ákvæðin. Ég sé því ekki hvernig fjmrn. gat komið með einhverja aðra niðurstöðu en það kemur með í kostnaðarumsögninni.

Það getur vel verið að mjög lítið reyni á þetta en við vitum það bara ekki núna af því að ekki hafa komið inn umsóknir um byggð eða einhvers konar mannvirki eða starfsemi sem við getum tekið afstöðu til í augnablikinu. Það er eitthvað sem þarf að reyna á síðar. En ég á ekki von á að það verði svo að ríkissjóður þurfi að fara í einhver sérstök fjárútlát vegna bóta sem til muni koma. Ég á ekki von á því en við getum heldur ekki útilokað að slíkt komi upp. Það verður að skoðast í hverju tilviki fyrir sig.