Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:42:16 (6629)

2004-04-23 13:42:16# 130. lþ. 101.1 fundur 934. mál: #A verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa almennri ánægju minni með það frv. sem hæstv. umhvrh. flytur hér. Það er löngu tímabært að setja sérstök lög um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess. Eins og væntanlega hefur komið fram í framsöguræðu hæstv. umhvrh. má líta svo á að Þingvallavatn og allt vatnasviðið sé framtíðarauðlind sem muni skipta ákaflega miklu máli fyrir þróun atvinnulífs og þarfir þéttbýlisins á suðvesturhorni þegar fram vindur um þessa öld. Það skiptir líka máli, tel ég, með hliðsjón af nauðsyn verndar vatns á þessu svæði að með frv. er hæstv. umhvrh. gefið töluvert mikið vald til að setja reglur sem eiga að draga úr möguleikum á mengun. Ég átti því miður ekki kost á því, herra forseti, að vera viðstaddur umræðuna hér í morgun en ég vænti þess að hæstv. ráðherra hafi þar skýrt fyrirætlanir sínar um það með hvaða hætti hún hygðist nýta sér þær valdheimildir sem verið er að færa henni með frv.

Mig langar að spyrja hana sérstaklega, í tilefni af 4. gr. frv. þar sem mælt er fyrir um að umhvrh. geti sett sérstakar reglur um takmarkanir á losun úrgangsefna frá sumarbústöðum á svæðinu, hvort einhvers konar könnun hafi farið fram. Hvaða losun á sér þá þar stað? Jafnframt spyr ég hvort hæstv. ráðherra telji eftir þá umfjöllun sem hún hefur væntanlega farið í gegnum í tengslum við samningu þessa frv. þörf á slíkum reglum.

Ég veit sökum þess að ég er fulltrúi Alþingis í Þingvallanefnd að það er fyrirhugað, því miður liggur mér við að segja, að ráðast í stórfelldar byggingar á sumarbústöðum á löndum sem liggja vestan megin og suður með Þingvallavatni. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh. hvort hún telji það samrýmanlegt þeim hugmyndum sem hún hefur.

Nú ber svo vel í veiði fyrir mig sem gamlan urriðaaðdáanda að hæstv. forsrh. er hér staddur. Áðan voru umræður sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hóf um möguleika þess að endurheimta hrygningarsvæði fyrir urriðann. Ég heyrði ekki svör hæstv. umhvrh. en samkvæmt þessu frv. er það hæstv. umhvrh. að setja sérstakar reglur sem tengjast sveiflum á vatnshæð vatnsins, þ.e. Þingvallavatns. Þann 4. desember árið 2002 ræddum ég og hæstv. forsrh. einmitt möguleikana á því að endurheimta glataða fiskstofna í vatninu með því að rjúfa einhvers konar rauf í stífluvegginn fyrir mynni Efra-Sogs og hleypa urriðanum aftur þar niður. Hæstv. forsrh. greindi þá frá jákvæðum vilja Landsvirkjunar og sagði að það mál væri í skoðun. Ég vildi því leyfa mér að spyrja hæstv. umhvrh. hvort í umfjöllun hennar um þetta frv. hefði verið gengið frá þessu máli. Er hæstv. umhvrh. kunnugt um að Landsvirkjun hafi afráðið þetta?

Ég vil svo að það komi líka fram að það var samstaða um það meðal þeirra þriggja alþingismanna sem sitja í Þingvallanefnd að beita sér fyrir samkomulagi við Landsvirkjun um að hrinda þessu í framkvæmd. Í ljósi þess sem hæstv. forsrh. sagði 4. desember 2002 spyr ég hæstv. umhvrh.: Hafa átt sér stað einhverjar viðræður við Landsvirkjun um þetta og er það vilji hæstv. umhvrh. að beita sér fyrir að þetta verði gert?