Framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:51:33 (6634)

2004-04-23 13:51:33# 130. lþ. 101.94 fundur 489#B framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:51]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það hafa staðið miklar umræður í fjölmiðlum um svokallað frv. hæstv. forsrh. um eignarhald og takmörkun á eignarhaldi á fjölmiðlum í landinu. Hér er um að ræða grundvallaratriði sem skiptir miklu máli að fái góða umfjöllun af hálfu hv. Alþingis og það eru aðeins fáir dagar eftir af þinginu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort það sé ætlun hans að þetta frv. verði fullrætt á þessu þingi, hvenær hann hyggist leggja það fram og ég vil jafnframt spyrja í framhaldi af þeim umræðum sem hafa orðið millum talsmanna stjórnarflokkanna í fjölmiðlum hvort þetta frv. sé til orðið og hvort um það sé sátt.

Fyrst og fremst spyr ég þó: Er það ætlun hæstv. forsrh. að mál sem tengist grundvallaratriðum eins og takmörkun á eignarhaldi í atvinnulífinu verði tekið í gegn með einhverri fljótaskrift og afgreitt á þessum örfáu dögum sem lifa eftir þings eða er hæstv. forsrh. að velta því fyrir sér að framlengja þingið til að hægt sé að afgreiða þetta mál?

Ég spyr enn: Hvenær má vænta þess að frv. sjái dagsins ljós til þess að hið háa Alþingi geti kynnt sér þetta mál sem er haldið frá öllum nema örfáum mönnum innan ríkisstjórnarinnar?