Framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 13:58:07 (6638)

2004-04-23 13:58:07# 130. lþ. 101.94 fundur 489#B framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[13:58]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég spurði hæstv. forsrh. hvort það væri búið að semja þetta frv. Hæstv. forsrh. gat ekki svarað því. Ég spurði hæstv. forsrh. hvort þetta frv. yrði lagt fram á næstu dögum. Hæstv. forsrh. gat ekki svarað því. Ég spurði hæstv. forsrh. hvort þetta frv. yrði afgreitt á þessu þingi. Hæstv. forsrh. gat ekki svarað því. Hann gerði hins vegar ráð fyrir þessu öllu saman. Þetta sýnir auðvitað hvernig samstarfið er í ríkisstjórninni í kringum þetta frv.

Þetta varpar líka ákveðinni birtu á vinnubrögðin sem hæstv. forsrh. hefur ástundað í þessu máli. Það hefur berlega komið fram að það er mikil ólga innan hins stjórnarflokksins vegna vinnubragða hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. hefur unnið þetta fram hjá Framsfl. Ráðherrar Framsfl. hafa ekki fengið að sjá þessa skýrslu áður en frv. verður lagt fram. Hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sem hér er staddur í salnum hefur sagt í fjölmiðlum að það sé alls ekki víst að þingmenn Framsfl. muni veita afbrigði til að hægt sé að vinna þetta frv.

Það sem skiptir þó mestu máli, herra forseti, er sómi og virðing Alþingis. Hér er um að ræða mál sem varðar grundvallaratriði um aðkomu löggjafans að atvinnulífinu og það hlýtur að vera frumréttur og krafa hins háa Alþingis að það fái nægan tíma til að leita samráðs og til að kanna jafndjúptækt mál og þetta. Þó segir hæstv. forsrh. að hann geri ráð fyrir því að málið verði afgreitt. Ætlar þessi ríkisstjórn enn einu sinni að beita ofbeldi til að ná fram vilja sínum í þessu máli? Mig langar líka til að spyrja, herra forseti, af því að hér eru margir þingmenn Framsfl.: Ætlar Framsfl. virkilega að láta beygja sig til hlýðni enn einu sinni, líka í þessu máli ofan á önnur?