Framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:00:36 (6639)

2004-04-23 14:00:36# 130. lþ. 101.94 fundur 489#B framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum# (um fundarstjórn), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:00]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna orða hv. þm. Marðar Árnasonar hlýt ég að telja að þó að forseti vor sé ljúfmenni mikið mundi hann ekki leyfa okkur að fara út í efnisatriði um þetta frv. eða þessa skýrslu eins og hv. þm. óskaði eftir.

Ríkisstjórnin hefur aðeins haft þessa skýrslu á borði sínu í hálfan mánuð. Hún er samin af nefnd á vegum stjórnarflokkanna vegna þess að aðdragandinn er sá, sem er dálítið óvenjulegur að vísu, að ríkisstjórnin í heild fól menntmrh. að skipa nefnd. Ríkisstjórnin fól menntmrh. að skipa nefnd þannig að málið hefur samfellt verið á borði ríkisstjórnarinnar. Í þeirri nefnd átti m.a. sæti framkvæmdastjóri þingflokks Framsfl. þannig að eitthvert tal um að ekki hafi verið tengsl við hinn stjórnarflokkinn --- þegar framkvæmdastjóri sjálfs þingflokksins situr í nefndinni --- er auðvitað algjörlega út í hött. Það að gera það tortryggilegt að ríkisstjórn skuli hafa mál innan sinna vébanda, mál sem menn segja að sé stórt, í hálfan mánuð áður en það er sett út í opinbera umræðu er ekkert óvenjulegt. Það er nánast sjálfsögð og viðtekin regla.

Það sem hefur hins vegar komið mér á óvart er að Samf., án þess að hafa séð málið, kynnt sér skýrslu upp á 180 síður, skuli bersýnilega leggjast svona gegn málinu fyrir fram. Ég hlustaði, að vísu úr fjarlægð, á brot úr stefnuræðu Samf. fyrir síðustu kosningar í Borgarnesi frá sjálfu forsætisráðherraefninu mikla og þar var auðvitað ákveðið að það ætti að skipa sérstakan verndarhring í kringum þrjú fyrirtæki, fyrirtæki Jóns Ólafssonar, Baugs og Kaupþings þannig að það er ekkert sem kemur manni á óvart í viðbrögðum Samf.