Framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:02:29 (6640)

2004-04-23 14:02:29# 130. lþ. 101.94 fundur 489#B framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum# (um fundarstjórn), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:02]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég tel rétt að benda hæstv. forsrh. á að fyrst honum er leyft af sitjandi forseta að fara svo vítt um völl sem hann gerði í ræðunni geti ekkert verið á móti því að hann svari okkur því hvaða vá sé í íslenskum fjölmiðlum núna. Hvaða hætta er svo knýjandi að það þurfi að setja lög á þeim 11 dögum sem eftir standa af þinginu, miðað við þá áætlun sem nú er í gildi, eða að það þurfi að framlengja þingið sérstaklega fram yfir þessa áætlun til að samþykkja frv. sem ekki er orðið til, sem enn er í drögum, sem ráðherrarnir í ríkisstjórninni, þeir í hinum flokknum, hafa ekki samþykkt, sem ekki hefur enn verið lagt fyrir stjórnarþingmenn hér í húsinu, sem þeir vita ekkert um og sem er alveg augljóst að það sem þeir þó vita um, það sem hefur lekið út af frumvarpsdrögunum, mætir harðri andstöðu, bæði í Framsfl. og Sjálfstfl.?

Hvað er svona knýjandi? Er einhver Rupert Murdoch á leiðinni sem ætlar að gleypa öll blöðin, alla fjölmiðlana? Er einhver útlendingur utan Evrópska efnahagssvæðisins svo durtslegur að ætla að leggja fram fé til íslenskrar fjölmiðlunar? Er eitthvað hér að gerast sem við vitum ekki af, sem höfum lifað við, ja, kannski ekki fyrirmyndarfjölmiðlun í landinu undanfarin ár frekar en endranær en þó alveg þokkalega fjölmiðlun þar sem með töluverðri dreifingu í eignaraðild og með töluverðri, sem betur fer, dreifingu og móttöku á skoðunum og áliti og fréttum? Hvað er það, forseti, sem knýr hæstv. forsrh. einan saman, því að ekki eru aðrir viðstaddir þennan atburð, þessi frumvarpsdrög, ekki aðrir ráðherrar, ekki hinn stjórnarflokkurinn, ekki þingmenn í þinginu, til að slengja fram þessu máli á síðustu dögum þessa þings til að ætla að koma því í gegn á tíma --- með því þá að framlengja þingið --- og hvað er það sem kemur í veg fyrir það að almenningur, fjölmiðlafólkið og þingmenn geti tekið þátt í þeirri umræðu sem er eðlilegur undanfari þess að frumvarpsdrög séu lögð fram og eðlilegur undanfari þess að þingið taki svona mál til umfjöllunar?