Framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:08:25 (6644)

2004-04-23 14:08:25# 130. lþ. 101.94 fundur 489#B framlagning frumvarps um eignarhald á fjölmiðlum# (um fundarstjórn), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég sé að það er full ástæða til að velta því fyrir sér hvort þetta mál komist yfirleitt nokkuð til umræðu í þinginu. Það hlýtur að þurfa langan yfirlestur í þingflokki Framsfl. áður en til þess kemur og það hlýtur að þurfa að taka afstöðu til þess í þinginu hvort afbrigði verða veitt fyrir því að þetta mál komi hér til umræðu.

Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram að það er náttúrlega ekki hægt annað en að gera kröfu um það að hér viðhafi þingið vönduð vinnubrögð ef það er meiningin að þrengja að atvinnulífinu með einhverjum hætti eins og þeim sem hefur komið fram, að virðist vera, á bak við þessar hugmyndir sem eru á ferðinni um það að nú allt í einu, á þessum dögum, sé orðið þannig ástatt í fjölmiðlum á Íslandi að það beri að setja lög til þess að hefta einhverja aðila sem hafi þar tök á einhverjum fyrirtækjum. Þetta er stundin sem menn ákveða að skuli vera uppi til þess. Og hvers vegna? Vegna þess að eigendur þessara fyrirtækja virðast fara í taugarnar á hæstv. forsrh. Það hefur komið fram hvað eftir annað. Hann nefnir einstök fyrirtæki, einstaka menn sem sérstök tilefni virðast gefa honum til þess að sett verði lög á Íslandi um það hverjir megi eiga fjölmiðla. Ég held að menn þurfi að gefa sér mjög góðan tíma til að fara yfir málin til þess að hugsa þau kalt svo að æsingur augnabliksins verði ekki hlutskipti Alþingis í svo alvarlegum málum. Eða er það þannig með hæstv. forsrh. að hann ætli að láta reyna á það hvort hann geti hleypt Framsóknardróginni yfir forirnar á meðan hann hefur hana undir hnakknum?