Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:30:55 (6647)

2004-04-23 14:30:55# 130. lþ. 101.4 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór mjög rækilega í gegnum þetta. Eins og hv. þm. vék að skiptir miklu máli að það sé alveg klárt hvernig skatturinn er skilgreindur annars vegar og svo varaflugvallagjaldið hins vegar. Skatturinn er lagður á og er nýttur til framkvæmda í samræmi við flugmálaáætlun. Þann skatt, 382 kr., greiða allir, bæði þeir sem eru í innanlands- og millilandaflugi. Varaflugvallagjaldið leggst hins vegar eingöngu á þá farþega sem nýta sér varaflugvallakostinn. Það er ekki skattur í skilningi skatta almennt heldur gjald fyrir skýrt skilgreinda þjónustu. Og hin skýrt skilgreinda þjónusta er þjónusta vegna varaflugvallanna og í gegnum það er farið mjög rækilega í frv. og því tel ég að út af fyrir sig sé ekki ástæða til að hafa fleiri orð um það. En við byggjum þá aðferð á áliti lagaprófessorsins sem ég tilgreindi í framsögu minni sem komst að þeirri niðurstöðu að það væri fullkomlega heimilt að viðhafa þessa aðferðafræði um gjaldtöku.