Flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 14:35:00 (6649)

2004-04-23 14:35:00# 130. lþ. 101.4 fundur 947. mál: #A flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála# (flugvallaskattur) frv. 95/2004, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[14:35]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er um einhvern misskilning að ræða hjá hv. þm. vegna þess að lögin sem við erum að fjalla hér um og gera ráðstafanir til að gera breytingar á, fólu það í sér að leggja á flugvallagjald sem er skattur, skilgreindur sérstaklega, upp á 1.250 kr. í millilandaflugi og 165 kr. í innanlandsflugi. Lögin um fjáröflun til flugmálaáætlunar færðu þessi gjöld sérstaklega til tiltekinna verkefna á vettvangi uppbyggingar samkvæmt flugmálaáætlun. Ég held því að um það þurfi ekki að vera neinn ágreiningur. En við gerum ráð fyrir því að það sé alveg skýrt að annars vegar er um það að ræða að leggja á skatt sem rennur til verkefna á sviði flugmálaáætlunar og hins vegar gjald, varaflugvallagjald, til þess að halda úti rekstri og uppbyggingu varaflugvallanna. Ég held að þetta sé nokkuð klárt og skýrt og vona að hvorki hv. þingmenn né þeir sem eru á vaktinni í Brussel misskilji það.