Norðurlandasamningur um almannatryggingar

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 15:01:18 (6657)

2004-04-23 15:01:18# 130. lþ. 101.5 fundur 948. mál: #A Norðurlandasamningur um almannatryggingar# frv. 66/2004, heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar.

Með frv. þessu er gert ráð fyrir að ákvæði Norðurlandasamnings um almannatryggingar sem undirritaður var í Karlskrona 18. ágúst árið 2003 fái lagagildi hér á landi þegar samningurinn hefur öðlast gildi. Samkvæmt ákvæðum samningsins mun hann öðlast gildi fyrsta dag þriðja mánaðar frá því að allar ríkisstjórnirnar hafa tilkynnt dönsku ríkisstjórninni að þær hafi staðfest samninginn. Við gildistöku samningsins falla úr gildi lög nr. 46/1993, um heimild til að fullgilda Norðurlandasamning um almannatryggingar. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal með frv.

Norðurlandasamningurinn um almannatryggingar frá 18. ágúst 2003 kemur í stað Norðurlandasamningsins frá 1992. Með samningnum frá 1992 var samstarf Norðurlandanna á sviði almannatrygginga endurskoðað með tilliti til EES-samningsins. Norðurlandasamningurinn frá 1992 náði fyrst og fremst til einstaklinga sem ekki féllu undir almannatryggingareglur EES, þ.e. norrænna ríkisborgara sem ekki voru í vinnu svo og afmarkaðs hóps ríkisborgara landa utan EES. Enn fremur hafði samningurinn að geyma nokkrar reglur á almannatryggingasviðinu sem gengu lengra en EES-reglurnar og náðu til allra, ekki einvörðungu til þeirra sem EES-reglurnar náðu ekki til.

Með Norðurlandasamningnum um almannatryggingar sem gerður var í Karlskrona 2003 er samstarf Norðurlandanna lagað að þeirri þróun sem orðið hefur frá 1992 á löggjöf Evrópubandalagsins um almannatryggingar sem gildir á Evrópska efnahagssvæðinu og á löggjöf norrænu ríkjanna um almannatryggingar.

Samningurinn nær, eins og samningurinn frá 1992, fyrst og fremst til einstaklinga sem ekki falla undir almannatryggingareglur EES. Helsta nýmælið er fólgið í breytingum á réttindum ríkisborgara ríkja sem ekki eru aðilar að EES-samningnum. Samkvæmt samningnum skulu reglur hans um lífeyri almannatrygginga, fjölskyldubætur og atvinnuleysisbætur einnig taka til ríkisborgara landa utan EES sem búa á Norðurlöndunum og/eða flytja milli þeirra, að Danmörku undanskilinni. Sérákvæði er varða Danmörk er að finna í fylgiskjali með samningnum. Í samningnum gildir hið sama og í samningnum frá 1992, þ.e. að vísað er til viðkomandi reglna Evrópubandalagsins um almannatryggingar. Einnig hefur samningurinn að geyma norrænar reglur sem ganga lengra en EES-reglur um almannatryggingar, en í samningnum er óbreytt það ákvæði samningsins frá 1992 að dvalarland stendur straum af aukakostnaði við heimferð einstaklings sem veikist eða slasast meðan á dvöl stendur í norrænu landi, þegar ferðamátinn heim verður dýrari en til stóð vegna veikindanna, t.d. vegna aukakostnaðar við sjúkrabörur.

Herra forseti. Norðurlandasamningur um almannatryggingar er mikilvæg viðbót við almannatryggingareglur EES-samningsins. Er mikilvægt að tryggja öllum íbúum Norðurlandanna lögbundin réttindi þegar þeir fara milli landanna. Ég leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til hv. heilbr.- og trn. og til 2. umr.