Loftferðir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 15:45:02 (6662)

2004-04-23 15:45:02# 130. lþ. 101.2 fundur 945. mál: #A loftferðir# (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.) frv. 88/2004, 946. mál: #A alþjóðasamningur um loftflutninga milli landa# frv. 52/2004, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[15:45]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Málið er eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom hér inn á mjög víðfeðmt vegna þess að við erum að skattleggja þá sem um flugstöð Leifs Eiríkssonar fara. Við erum að leggja sérstaklega skatt á öryggisþátt millilandsflugsins sem byggist á greiðslu til viðhalds öryggis á flugvöllunum þremur. En hvers vegna eiga einhverjir einstakir aðilar að taka ágóða út úr Flugstöð Leifs Eiríkssonar á sama tíma og lagðir eru sérstakir skattar á farþegana? Þetta er náttúrlega komið í einhverja steypu sem verður að taka á. Það gengur ekki að utanríkisráðuneytið sé að leika algjört fríspil í þessu eins og ég nefndi áðan í sambandi við ráðstefnu sem þeir boða til um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Furðulegt! Og það er eins og samgönguráðuneytið sé ekki til. Þetta segir allt um það ástand sem ríkir í þessu blessaða utanríkisráðuneyti og full ástæða er til þess að við tökum á því.