Loftferðir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 16:01:42 (6668)

2004-04-23 16:01:42# 130. lþ. 101.2 fundur 945. mál: #A loftferðir# (Montreal-samningurinn, EES-reglur o.fl.) frv. 88/2004, 946. mál: #A alþjóðasamningur um loftflutninga milli landa# frv. 52/2004, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[16:01]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hæstv. ráðherra. Við þurfum greinilega að taka á þessum þáttum ferðaþjónustunnar sem snúa að fluginu og þjónustunni á Keflavíkurflugvelli við Leifsstöð, hvernig því er öllu háttað.

Varðandi lendingargjöldin gat ég ekki heyrt annað en hæstv. ráðherra tæki undir að endurskoða þyrfti hvort við ættum að miða þetta við íslensku krónuna. Lendingargjöldin eru í dollurum í Reykjavík. Ég get ekki séð að við eigum að breyta því á Keflavíkurflugvelli, sérstaklega ef þær upplýsingar sem ég hef fengið eru réttar, um að þetta muni torvelda flugfélögum sem hyggjast koma inn til lendingar. Auðvitað er það svo að öll þessi flugfélög eru með bókhald sitt í erlendri mynt og oft í dollurum eða evru. Ég held að það muni torvelda okkur að styðjast við íslensku krónuna, sérstaklega á Keflavíkurflugvelli.

Varðandi umræðuna um gjöldin út af varaflugvöllunum þá þurfum við líka að skoða þá þætti í nefndinni og kalla eftir upplýsingum. Hvernig er þessum málum háttað í öðrum löndum, t.d. varðandi greiðslur fyrir varaflugvelli annars staðar? Hæstv. ráðherra nefndi hér Glasgow í þessari umræðu.

Ráðstefnan sem hv. formaður nefndarinnar Guðmundur Hallvarðsson nefndi, um Leifsstöð og þjónustuna þar, er náttúrlega talandi dæmi um samstarfið milli þessara ráðuneyta, að þar sé á ferðinni heil ráðstefna án þess að samgönguyfirvöld og yfirvöld ferðamála komi að. Það er talandi dæmi um samstarfið í þessari ríkisstjórn.

Hæstv. ráðherra talar um að við afgreiðum þetta áreiðanlega snaggaralega í nefndinni. Það eru svo margir þættir sem þarf að skoða hér að ég leyfi mér að efast um að hægt verði að afgreiða það mjög snaggaralega. En auðvitað munum við taka fast á málinu.