Rannsókn flugslysa

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 16:08:20 (6670)

2004-04-23 16:08:20# 130. lþ. 101.7 fundur 451. mál: #A rannsókn flugslysa# frv. 35/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Nefndin lagði töluverða vinnu í þetta mál. Ég held að segja megi að þar hafi farið fram ágætisumfjöllun. Málið fékk ítarlega meðferð í þinginu síðasta vetur og ég tel að það sé að flestu leyti prýðilega unnið. Auðvitað á eftir að koma í ljós í framhaldinu hvernig reynist.

Eitt atriði hafði ég þó helst í huga og var ástæða fyrir fyrirvara mínum. Mér fannst það koma fram við meðferð málsins að þeir sem um það hafa fjallað og almennt hugsað þessi mál líti svo á að ríkjandi gangur mála þegar slys verða sé að eingöngu flugslysanefnd fáist við rannsókn slíkra mála.

Nefndin fékk umsögn, bréf sem Bogi Nilsson sendi sem ekki var hægt að misskilja. Ég tel skýrt að sú afstaða hljóti að gilda hvað varðar slys ef lögreglan kýs og ákveður að hefja rannsókn. Þegar lögreglan hefur tekið ákvörðun um slíkt þá hefur hún ráðin á vettvangi, þ.e. ræður vettvangi þegar rannsókn fer fram.

Þau tjöld sem draga á milli flugslysanefndar og annarra aðila með því lagafrv. sem hér liggur fyrir eru það þykk, finnst mér, að það hljóti að vera hlutverk lögregluyfirvalda að taka ævinlega afstöðu til þess í hverju einasta tilviki hvort sérstök rannsókn lögregluyfirvalda fari fram. Þetta er að mínu viti mjög mikilvægt að menn hafi í huga.

Ég vil gera grein fyrir afstöðu minni til þessa hér. Ég mun ekki bera fram breytingartillögu eða gera annað hvað málið varðar en að benda á og lýsa yfir að ég lít þannig á að ef lögregluyfirvöld ákveða að fara skuli fram rannsókn þá sé það lögreglan sem ræður vettvangi. Auðvitað hleypir hún flugslysanefnd að þeim vettvangi en eins og Bogi Nilsson benti á í bréfi sínu til nefndarinnar er það skoðun hans að þessu sé þannig farið.

Ég vil endurtaka að við umfjöllun málsins fannst mér sem ýmsir litu öðruvísi á þetta, þ.e. að flugslysanefnd væri ævinlega sá aðili sem réði vettvanginum og að gögn sem flugslysanefnd fengi í hendur væru undanþegin rannsókninni.

Þetta vildi ég að kæmi fram. Ég tel ástæðu til að það sé skýrt að lögregluyfirvöld hljóta að vera sá aðili sem ræður vettvangi og hleypir flugslysanefnd að eftir atvikum þegar rannsókn hefur náð þeim árangri sem þeir telja þörf á áður en aðrir geta fengið aðgang að vettvangi.

Hvað varðar aðgang að gögnum sem flugslysanefnd hefur tekið í vörslu sína held ég að það sé ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því að lögreglan fái ekki aðgang að slíkum gögnum, að öðru leyti en því sem lagafrumvarp þetta kveður á um að þau skuli vera undanskilin. Að vísu erum við líklega að ganga lengra en gert hefur verið annars staðar hvað varðar slík gögn sem ekki verða þá til reiðu fyrir lögreglurannsókn. Það á auðvitað eftir að koma í ljós hvort við göngum lengra en æskilegt er í því efni.