Málefni aldraðra

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 17:27:46 (6688)

2004-04-23 17:27:46# 130. lþ. 101.10 fundur 570. mál: #A málefni aldraðra# (hlutverk Framkvæmdasjóðs, samstarfsnefnd o.fl.) frv. 38/2004, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[17:27]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi daggjöldin er alveg rétt að hjúkrunarheimilin og vistheimilin veita mismunandi þjónustu. Það er greinarmunur gerður á því og það vantar ákvæði um það hver lágmarksþjónusta skuli vera og jafnvel hver hámarksþjónusta skuli vera, vegna þess að sum heimili eru komin fram úr sjálfum sér miðað við daggjöldin. Þau eru farin að veita of mikla þjónustu. En er öldruðum nokkurn tímann veitt of mikil þjónusta? Aldrei. Hins vegar er það mat hvers heimilis hve langt er hægt að ganga í þjónustunni miðað við daggjöldin sem greidd eru. Það þarf eftirlit með því, ég er alveg sammála því. En munurinn á milli hjúkrunarheimila og vistheimila er mér alveg ljós.

Þó er tvennt ólíkt hvað áhrærir mönnun hjúkrunarheimila og vistheimila. Ég er samt á því að það þurfi að endurskoða mönnun hjúkrunarheimila. Það speglast kannski best í því að landlæknir gefur út staðla um lágmark hjúkrunarfræðinga sem ráðuneytið hefur ekki samþykkt, en Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga gerir þó kröfu í anda þess. Sjúkraliðar gætu t.d. sinnt talsvert meiru en þeir gera í dag langt upp að þekkingu hjúkrunarfræðingsins. En ég ætla ekki að hætta mér út í stéttarfélagsmál, síst við þessa tvo hópa, því það er stórhættulegt og málið mjög vandmeðfarið.

Það má á engan hátt skerða þjónustu aldraðra, en við megum passa okkur á því að fara ekki fram úr okkur fjárhagslega vegna þjónustunnar og mönnunar.