Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 17:59:36 (6694)

2004-04-23 17:59:36# 130. lþ. 101.11 fundur 446. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (slátrun eldisfisks) frv. 40/2004, VF
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[17:59]

Valdimar L. Friðriksson:

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frv. til laga um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða. Jafnframt er lagt til að þau lög, ef samþykkt verða, nái til slátrunar á eldisfiski. Þeim er ætlað að skerpa á verkaskiptingu, ábyrgð og eftirliti með slátrun. Það er alveg á hreinu að þessum málum er ekki nógu vel fyrir komið í dag eins og fram hefur komið í umræðunni og það hefur vakið athygli mína síðustu vikur, bæði í þessum málum sem og öðrum, hversu miklar skaranir eru í gangi á milli ráðuneyta. Skaranir sem leiða jafnvel af sér slys. Skilin milli ráðuneyta í mörgum málum, þar með talið fiskeldi, eru ekki nægilega skýr. Vinna þarf meira í því á hinu háa Alþingi að skýra skil milli ráðuneyta m.a. til að forðast réttaróvissu. En það er ekki sama hvernig breytingar á lögum eru unnar, það þarf að gera í samráði við þá aðila er málið viðkemur en ekki einhliða.

Eins og fram hefur komið var gerð breyting á þessum lögum árið 1998 þar sem orðið ,,slátrun`` féll brott. Í umsögn frá embætti yfirdýralæknis vegna þessa frumhlaups sem hér liggur fyrir segir um breytingarnar 1998, með leyfi forseta:

,,Þessi breyting var gerð einhliða og án nokkurs samráðs við embætti yfirdýralæknis.``

Hv. þm. Samf., Jón Gunnarsson, vitnaði áðan í þessa umsögn þar sem skýrt komu í ljós skoðanir á samræmi hjá meiri hlutanum við gerð lagabreytinganna 1998. Ég vænti þess að bót sé ráðin á því nú í meðferð málsins við þessar breytingar.

Virðulegi forseti. Talandi um slys og eftirlit, talandi um fiskeldi og slátrun. Eitt af þeim slysum sem átt hafa sér stað varðandi afskipti opinberra stofnana af fiskeldi og slátrun var þegar Byggðastofnun aðstoðaði fiskeldisstöðvar í nokkur ár en hætti síðan afskiptum og aðstoð t.d. nokkrum mánuðum áður en árangri er náð, þ.e. að fiski er náð upp í sláturstærð. Dæmi um slíkt höfum við og hefur komið fram í fjölmiðlum, t.d. í Tálknafirði. Það sem gerðist þar var að Byggðastofnun hættir að lána ákveðnu fyrirtæki, sendir það í gjaldþrot og tekur á sig alla ábyrgð á rekstri en sveltir síðan fiskinn í hel. Í þessu tilfelli var öllum hagsmunum hent fyrir borð, fé almennings, fé og störfum eigenda, lög um dýravernd voru brotin og athugasemdir dýralæknis hunsaðar. Að þessu máli koma mörg ráðuneyti og margar stofnanir: iðnrn. --- Byggðastofnun; umhvrn. --- Umhverfisstofnun; landbrn. --- dýralæknar; dómsmrn. --- sýslumenn.

Að þessu sögðu veltir maður fyrir sér, og ég ætla ekki dýpra í það mál hér, samráði milli ráðuneyta. Samráði milli stofnana og eftirlitsaðila.

Virðulegi forseti. Fiskeldi og mál því tengt heyra undir mörg ráðuneyti. Þar er mikil skörun í gangi. Ég tel nauðsynlegt að Alþingi taki það til alvarlegrar skoðunar að færa fiskeldi undir eitt ráðuneyti. Í þessu tilfelli væri því væntanlega best komið undir sjútvrn.