Siglingastofnun Íslands

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 18:04:44 (6695)

2004-04-23 18:04:44# 130. lþ. 101.12 fundur 467. mál: #A Siglingastofnun Íslands# (siglingavernd, kóðar, gjaldtaka) frv. 39/2004, Frsm. GHall
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[18:04]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. samgn. um frv. til laga um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fjölmarga aðila auk þess sem nefndinni bárust fjölmargar skriflegar umsagnir.

Verkefni Siglingastofnunar hafa tekið nokkrum breytingum á undanförnum árum og er frv. ætlað að mæta þeim. Helstu efnisatriði frv. eru þau að Siglingastofnun er falið að annast framkvæmd laga um siglingavernd og birta á heimasíðu sinni alþjóðasamninga, viðauka og kóða sem gefnir eru út af Alþjóðasiglingamálastofnuninni auk þess sem settar eru skýrari reglur í lög varðandi heimildir stofnunarinnar til tekjuöflunar.

Við umfjöllun málsins urðu töluverðar umræður í nefndinni um notkun orðsins ,,kóði`` og einnig um heimildina sem felst í frv. til handa Siglingastofnun að birta alþjóðasamninga, viðauka og kóða á ensku. Það varð þó niðurstaða nefndarinnar að leggja ekki til breytingar á þessu tvennu frá því sem lagt er til í frv.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frv.:

1. Að í stað orðanna ,,siglinga- og hafnavernd`` í 13. tölul. b-liðar 1. gr. komi siglingavernd. Til meðferðar á þinginu nú er frv. til laga um siglingavernd en engin lög eru til um siglinga- og hafnavernd. Því er rétt að breyta orðalagi frv. til samræmis við það frv. sem nú er til meðferðar um siglingavernd.

2. Að við 14. tölul. b-liðar 1. gr. bætist nýr málsliður sem mæli svo fyrir að þeim sem þess óska skuli gefinn kostur á að fá sendar tilkynningar frá Siglingastofnun þegar birtir eru nýir samningar, kóðar eða viðaukar eða þeim breytt á heimasíðunni. Í umsögn um frv. frá Sambandi íslenskra kaupskipaútgerða kom fram gagnrýni á að breytingar á alþjóðasamningum, viðaukum og kóðum yrðu aðeins birtar á netinu en ekki tilkynntar þeim sem helst eiga að fara eftir þeim. Nefndin telur rétt að komið verði til móts við þetta sjónarmið.

3. Að upptalning verði sett inn í ákvæðið varðandi sérþjónustu sem Siglingastofnun selur. Nefndin áréttar að hér er ekki um endanlega upptalningu að ræða heldur er aðeins verið að skýra nánar hvað fallið getur undir liðinn.

4. Þá er að lokum lögð til orðalagsbreyting á lokamálsgrein 1. gr. sem óþarft er að skýra.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Kristinn H. Gunnarsson og Ásta R. Jóhannesdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Jóhann Ársælsson skrifar undir með fyrirvara.

Undir nál. skrifa hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, Guðjón Hjörleifsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Birkir J. Jónsson, Jóhann Ársælsson, með fyrirvara, Einar Már Sigurðarson og Guðjón A. Kristjánsson.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 3. umr.