Milliliðalaust lýðræði

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 18:11:10 (6697)

2004-04-23 18:11:10# 130. lþ. 101.21 fundur 600. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., Flm. BjörgvS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[18:11]

Flm. (Björgvin G. Sigurðsson):

Frú forseti. Ég þakka fyrir að málið komist á dagskrá þannig ég geti mælt fyrir þessu ágæta þingmáli þar sem ég verð fjarverandi í næstu viku. Hér er um að ræða till. til þál. um milliliðalaust lýðræði. Flutningsmenn eru, auk mín, hv. þm. Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir, Jóhann Ársælsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Einar Már Sigurðarson og Össur Skarphéðinsson.

Málið er nú flutt í nýrri og endurbættri mynd, en við höfum flutt tillögur sem lúta að svipuðu og sama efni áður, en málið fór í ítarlega vinnu í flokki okkar og kemur þaðan út sem eitt af meginstefnumálum okkar í vetur og kallast á við ýmis önnur lýðræðismál sem við höfum mælt fyrir á undanförnum mánuðum og missirum, svo sem að gera landið að einu kjördæmi. Ber sérstaklega að geta tillögu sem fram kom strax á haustdögum og var lögð fram af formanni Samf., hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, sem lýtur að breytingum á stjórnarskrá. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í nútímalýðræði verða borgararnir að eiga kost á því að segja álit sitt á þeim málum sem mestu varða með öðrum hætti en einungis að kjósa fulltrúa á Alþingi á fjögurra ára fresti. Í stefnumótun Samfylkingarinnar um lýðræði var það því ein meginniðurstaða að nauðsynlegt væri að rýmka rétt þegnanna til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu við tilteknar aðstæður. Svipuð viðhorf er að finna í öðrum flokkum og áhersla á þau fer vaxandi. Færi svo að Samfylkingin tæki þátt í endurskoðun á stjórnarskránni er þetta t.d. meðal þeirra atriða sem flokkurinn legði einna þyngsta áherslu á af þeim hugmyndum sem Samfylkingin kynnti í tillögunni sem hún flutti í haust í tilefni af heimastjórnarafmælinu.``

Beint lýðræði er að mati okkar flutningsmanna það lýðræðisform sem við eigum að feta okkur nær á næstu árum og er lýðræðisform framtíðarinnar, ef svo má að orði komast, í þeirri mynd að borgararnir hafi æ meira um hagi sína og kjör að segja en áður. Fyrir því liggja óteljandi mörg rök að stigin séu stór og þung skref frá því fulltrúalýðræði sem við höfum búið við síðustu aldir og kerfi sem átti augljóslega rétt á sér þegar það var tekið upp og samgöngur, fáfræði og menntunarskortur hömluðu því að fólk gæti tekið virkari þátt í ákvörðunum um meginmál samfélagsins en nú er. Þó er alls ekki verið að tala um að fara út í einhverjar öfgar eins og má segja að hafi að einhverju leyti gerst í Sviss, þar sem mjög tíðar atkvæðagreiðslur um ýmis mál hafa valdið leiða hjá kjósendum sem eru löngu hættir að mæta í nægjanlegum mæli á kjörstað. Einnig má færa rök fyrir því að ef öll mál eru dregin fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu sé oft erfitt að vinna sumum málum framgang. Hér er því verið að tala um að fara millileiðina og ekki síst að styrkja það kerfi sem við höfum og munum að sjálfsögðu hafa áfram í grunninn, sem er fulltrúalýðræðið, með því að auka beint lýðræði og efla milliliðalaust lýðræði með ýmsum hætti.

Við leggjum til að Alþingi álykti að setja á stofn nefnd sem kanni möguleika við að þróa milliliðalaust lýðræði og kosti rafrænna aðferða við framkvæmd þess. Tæknibyltingin hefur opnað okkur glænýja möguleika til að ástunda lýðræði hvers konar og menn hafa verið að feta sig áfram með það sérstaklega í Bandaríkjunum og má binda vonir við að eftir nokkur ár verði komin fram tækni sem geri okkur kleift að framkvæma 100% öruggar þjóðaratkvæðagreiðslur eða atkvæðagreiðslur innan sveitarfélaga með tilkomu tækninnar. Við leggjum því til í þáltill. okkar um milliliðalaust lýðræði að nefndin sem lagt er til að skipuð verði kanni sérstaklega kosti rafrænna aðferða.

[18:15]

Rafrænum aðferðum við framkvæmd atkvæðagreiðslna fjölgar stöðugt og mun sérstök tillaga um þau mál áreiðanlega líta dagsins ljós hjá okkur samfylkingarmönnum á næstu missirum. Við leggjum til að nefndina skipi fulltrúar Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Viðskiptaháskólans á Bifröst, Háskólans á Akureyri, Neytendasamtakanna, ASÍ, Sambands íslenskra sveitarfélaga, stúdentaráðs Háskóla Íslands, ásamt fulltrúum allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi.

Nefndin kanni jafnframt hvaða áhrif milliliðalaust lýðræði hefði á samfélagið, efnahagslega, félagslega og stjórnmálalega, sérstaklega með tilliti til sveitarstjórna og sveitarfélaganna þar sem auðvelt er að nota milliliðalaust lýðræði í miklum mæli. Nefndin skili greinargerð eigi síðar en eftir sex mánuði.

Síðan við fórum að ræða þessi mál á Alþingi fyrir tveimur til þremur árum, ýmsir samfylkingarmenn, hafa átt sér stað skemmtilegar umræður í samfélaginu um lýðræðismál. Þar hefur Morgunblaðið farið mikinn og fjallað af vandvirkni um lýðræðismál og í sumum leiðurum sínum skrifað til stuðnings því að við eflum og tökum upp milliliðalaust lýðræði. Það var svo rausnarlegt að þýða á íslenska tungu og staðfæra úttekt tímaritsins The Economist um milliliðalaust lýðræði. Sú úttekt og birting Morgunblaðsins á Economist-úttektinni á beinu lýðræði hefur að mörgu leyti verið til grundvallar í umræðunni undanfarin missiri. Hún kveikti að mörgu leyti það bál sem víða brennur hjá fylgismönnum beins og milliliðalauss lýðræðis og hugmyndir um að efla verulega þetta lýðræðisform.

Mig langar af því tilefni að vitna í leiðara Morgunblaðsins frá því 11. febrúar 2004, sem ber yfirskriftina Vald fólksins, með leyfi forseta:

,,Lýðræði er án efa sú stjórnskipun sem leitt hefur til mestrar farsældar og framfara. Það fer ekkert á milli mála hvað átt er við með lýðræði. Orðið er gagnsætt og merkir að valdið sé fólksins: almenningur ræður. Útfærsla lýðræðis hefur hins vegar verið með ýmsu móti og það hefur þróast hægt og bítandi í aldanna rás. Í upphafi var atkvæðisrétturinn þeirra sem valdið höfðu en smám saman varð atkvæðisrétturinn víðtækari, hætti til dæmis að vera bundinn við eignir, kynferði eða kynþátt, eftir því hvar er borið niður. Þetta voru breytingar sem ekki gerðust þrautalaust.

Þróun lýðræðis lýkur hins vegar ekki einn góðan veðurdag og sennilega á það við um flest lýðræðisríki heims að hægt er að gera betur í að færa valdið til fólksins. Við búum við svokallað fulltrúalýðræði á Íslandi sem felst í því að kjósendur kjósa sér fulltrúa til setu á Alþingi og fara þeir með valdið fyrir hönd umbjóðenda sinna. Það er ef til vill einföldun en segja má að kjósandinn hafi valdið á fjögurra ára fresti en þess á milli fara aðrir með vald hans.``

Í lok leiðarans segir síðan, með leyfi forseta:

,,Nú er svo komið að tæknin býður upp á það að hægt er að ganga til kosninga með mun minni fyrirhöfn en áður og upplýsingar eru kjósendum jafnaðgengilegar og hinum kjörnu fulltrúum. Almenningur getur því hæglega tekið málefnalega afstöðu til flókinna og umdeildra mála. Það er því tímabært að þessi mál verði tekin til endurskoðunar og lýðræðið eflt.``

Þetta er einn af mörgum vönduðum og góðum leiðurum Morgunblaðsins þar sem hvatt er til að lýðræðið verði eflt og milliliðalaust lýðræði tekið upp á Íslandi.

Morgunblaðið hefur stutt vel við bakið á þeirri þáltill. okkar, nokkurra samfylkingarmanna, sem hér er til umræðu, um eflingu milliliðalauss lýðræðis. Óskandi væri að Alþingi greiddi þessari tillögu leið og samþykkti enda þjóðarbúinu að kostnaðarlausu. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að skipa nefnd valinkunnra einstaklinga og aðila sem kanna mundu hvaða áhrif beint lýðræði hefði á samfélagið, efnahagslega, félagslega og stjórnmálalega. Eins og ég gat um áðan yrði það sérstaklega skoðað með tilliti til sveitarstjórna og sveitarstjórnarstigsins. Þar er nærþjónustan og þar á beint lýðræði, milliliðalaust lýðræði og íbúalýðræði hvers konar sérstaklega heima.

Talandi um þá umræðu sem í gangi hefur verið undanfarna mánuði, um beint lýðræði í fjölmiðlum, meðal stjórnmálamanna og annarra í samfélaginu, þá hefur verið gaman að fylgjast með íbúaþingunum í sveitarfélögunum á síðustu mánuðum. Æ fleiri sveitarfélög hafa varið fjármagni og kröftum til að halda vönduð og góð íbúaþing um stærstu málefni sín, núna síðast fyrir viku í Fjarðabyggð var haldið mjög vel heppnað íbúaþing um þau málefni sem þar eru efst á baugi. Önnur sveitarfélög sem haldið hafa íbúaþing á síðustu mánuðum eru m.a. Árborg, Hveragerði, Ölfus, Reykjavík, Garðabær og sjálfsagt fleiri.

Stöðugt fleiri sveitarfélög líta á þetta sem eðlilegan og nauðsynlegan lið í starfsemi sinni, þar sem íbúarnir koma saman og ræða stóru málin og fá að leggja línurnar fyrir stjórnmálamennina. Stjórnmálamenn eru jú kosnir til að framkvæma vilja fólksins og í því samfélagi sem við búum í í dag fer því fjarri að það eitt að greiða atkvæði á fjögurra ára fresti um hverjir skuli vera fulltrúar fólksins á löggjafarsamkomunni fullnægi því sem við köllum lýðræði og Morgunblaðið skilgreindi svo ágætlega í þeim leiðara sem ég las upp úr áðan, þ.e. að fólkið ráði. Kosningar á fjögurra ára fresti eru fjarri því að fullnægja þeim kröfum sem við hljótum að gera til lýðræðisþjóðfélags eins og okkar.

Margt hefur verið rætt og ritað skemmtilegt og uppbyggilegt sem orðið hefur málinu til framdráttar undanfarið. Fáir hafa orðið til að mæla því í mót. Fyrr í vetur birtist sérstaklega skemmtileg grein í Fréttablaðinu sem heitir Tímabært að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún er eftir Össur Skarphéðinsson, hv. alþingismann og formann Samf., og fjallar um að í upphafi Íslandsbyggðar höfðu landsmenn opið þjóðþing við Öxará þar sem þeir gátu komið saman og tekið ákvarðanir með beinni atkvæðagreiðslu. Þegar samfélagið stækkaði og varð þyngra í vöfum varð það form óhentugt. Fulltrúalýðræðið var þá tekið upp. Í reynd felur það í sér valdaframsal þjóðarinnar til mjög fárra fulltrúa sem sitja á Alþingi. Þeir fá fullt og óskorað vald til að taka ákvarðanir. Í greininni segir, með leyfi forseta:

,,Alþingismenn eru algjörlega óbundnir af vilja kjósenda samkvæmt fyrirmælum stjórnarskrárinnar. Eina leið kjósenda til að láta í ljós skoðun sína á því hvernig alþingismenn fara með valdið er í kosningum á fjögurra ára fresti. Þessi aðferð er gölluð að því marki að tök sérhagsmuna og flokksræði eru þess megnug að kæfa vilja þjóðarinnar í einstökum málum, eins og dæmin sanna.

Úr ágöllum fulltrúalýðræðisins má bæta með því að breyta stjórnarskránni þannig að tiltekinn fjöldi landsmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Á tímum góðra samgangna og óhefts aðgangs almennings að öllum upplýsingum um flókin mál í krafti netsins eru engin rök`` --- ég ítreka það og undirstrika, virðulegur forseti --- ,,sem mæla lengur gegn því. Þjóðin verður að eiga rétt á að kalla fram beina atkvæðagreiðslu um stórmál.``

Þarna má segja að formaður Samf. og einn flutningsmanna þessarar till. til þál. um milliliðalaust lýðræði hafi rammað inn þá tillögu sem hér er flutt og við fylgjum eftir með greinargerð sem tekur á ýmsum málum.

Að sjálfsögðu þarf að gæta að ýmsu þegar skrefin eru stigin í átt að milliliðalausu lýðræði, t.d. minnihlutahópum og þeim sem hafa ekki aðgang að netinu, þeim sem hafa annaðhvort ekki aðstæður eða áhuga á að nýta sér það form. Sérstaklega verður að tryggja að samhliða rafrænum atkvæðagreiðslum verði haldnar hefðbundnar atkvæðagreiðslur þannig að þeir sem ekki nýta sér netið af einhverjum ástæðum geti greitt atkvæði.

Ein af stærstu rökunum fyrir milliliðalausu og beinu lýðræði finnast mér, virðulegi forseti, að með því má stemma stigu við óhóflegum áhrifum fjármagnsins á stjórnmálalífið. Allir vita að fjársterkir aðilar hafa gríðarleg áhrif á stjórnmálastarfsemi hvers konar og sú leynd sem hvílir yfir bókhaldi stjórnarflokkanna, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, er að sjálfsögðu ekki til að bæta þar úr. Sú umræða er angi af þeirri lýðræðisumræðu sem við jafnaðarmenn höfum staðið fyrir á síðustu mánuðum og er að sjálfsögðu efni í sérstaka umræðu.

Beint lýðræði upprætir óhófleg áhrif fjársterkra hagsmunaaðila sem oft hafa mikil áhrif á kjörna fulltrúa flokkanna, ekki síst þegar litið er til Íslands þar sem bókhald flokkanna er lokað og fjárreiður þeirra leyndarmál, jafnóeðlilegt og það er. Í því tilefni vísum við flutningsmenn í frv. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um fjárreiður flokkanna. Eins og gefur að skilja er miklu erfiðara að hafa áhrif á allsherjaratkvæðagreiðslu heillar þjóðar en beita einstaka stjórnmálamenn þrýstingi og nýta vald fjármunanna í því tæknisamfélagi fjölmiðlunar og stórkapítals sem við að sjálfsögðu lifum í í dag.

Tími minn er útrunninn, virðulegi forseti, þótt ég sé rétt að hefja mál mitt og rökstuðning fyrir málinu en ég skora á Alþingi Íslendinga að veita því framgöngu.