Milliliðalaust lýðræði

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 18:26:42 (6698)

2004-04-23 18:26:42# 130. lþ. 101.21 fundur 600. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[18:26]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Eins og fram kom í máli hv. 1. flm. þáltill. sem hér er til umræðu er ég meðflutningsmaður að henni og fagna því að hún skuli hafa komist á dagskrá á hinu háa Alþingi. Með því gefst okkur kostur á að ræða um nauðsyn þess að hafa milliliðalaust lýðræði. Ég var farinn að óttast, í öllu því kraðaki sem hér hefur ríkt á undanförnum dögum, að þessi þáltill. kæmist ekki til umræðu. Ég fagna því að hún skuli komin á dagskrá.

Það hlýtur að vera nauðsynlegt fyrir okkur að skoða með reglulegu millibili með hvaða hætti við framfylgjum lýðræðinu. Breytingarnar á þjóðfélaginu og heiminum öllum eru það miklar og svo hraðar að við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur stöðu lýðræðisins og hvaða aðferðir okkur bjóðast til að ná meiri árangri og betri skilvirkni í þeim efnum en hingað til.

Allir sem einhvern tíma hafa verið í pólitík þekkja að hvort sem það er á sviði sveitarstjórna eða Alþingis þá getur verið erfitt að fá fólk í stjórnmálastarf og að virkja fólk til að taka þátt í umræðu og ákvörðunum um mikilsverð mál. Við hljótum að reyna með öllum hætti að toga fólk að borðinu með okkur með öllum mögulegum ráðum.

Ein leið sem prófuð hefur verið í talsverðum mæli, eins og fram kom í máli hv. flutningsmanns, Björgvins G. Sigurðssonar, eru íbúaþing sveitarfélaganna. Sem gamall sveitarstjórnarmaður veit ég að í upphafi, þegar menn voru að ræða þessa hugmynd, þá leist mönnum ekki betur en svo á en að þetta yrði einhvers konar tískubóla sem ekki mundi skila miklum árangri. En allar hrakspár og svartsýni um að íbúaþing mundu ekki skila árangri hafa verið rækilega afsannaðar frá því að íbúaþing voru fyrst haldin í sveitarfélögunum. Það hefur verið virkilega gaman að fylgjast með því hve tilbúnir íbúarnir hafa verið til að mæta og ræða þau mál sem á dagskrá eru hverju sinni. Þau þing sem ég hef fylgst með eru ekki dauðyflisleg. Þar hefur verið mikið starf í gangi og íbúarnir tekið ríkan þátt í að velta fyrir sér stöðu mála og hvaða leiðir er hægt að fara. Ég fullyrði að svona þing hafa víða skilað því að kjörnir fulltrúar hafa fengið nesti inn í umræðuna og getað grundað ákvarðanir sínar mun betur í framhaldinu en með því einu að sitja í hreppsnefnd eða bæjarstjórn og velta málunum fyrir sér þar.

Eins og fram hefur komið og allir vita ríkir hér fulltrúalýðræði. Ég sé ekki fyrir mér að það breytist. Við höfum heyrt gagnrýnisraddir á milliliðalaust lýðræði, að það muni verða til þess að alþingis- og sveitarstjórnarmenn verði óþarfir í framhaldinu, að hægt yrði að greiða atkvæði á netinu eða í þjóðaratkvæðagreiðslu um öll mál. Ég held að slíkar hugmyndir séu ekki raunhæfar og líkari draumförum hæstvirtra ráðherra eins og þær gætu verið þegar þá dreymir um að ekkert þing sé til staðar og þeir einir ráði öllu og það væri hið fullkomna lýðræði.

Mér kom á óvart, frú forseti, þegar ég hóf störf á Alþingi að sjá hve mikið vald ráðherra er í raun og hve veikt löggjafarvaldið er í höndum Alþingis. Það er veikt gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held að þessi skekkja sé slík að menn þurfi í alvöru að fara að velta fyrir sér hvernig við getum snúið til baka. Alþingi á að hafa löggjafarvaldið og ráðherrarnir fara með framkvæmdarvaldið. En eins og þetta snýr við mér, sem tiltölulega nýjum þingmanni, sé ég ekki betur en ráðherrar ráði í raun hver um sig hvað fer fram hér á þingi. Oft á tíðum gefa þeir sér fyrir fram þá niðurstöðu sem út á að koma eftir að Alþingi hefur fjallað um mál.

Það hlýtur að vera hverjum kjörnum fulltrúa nauðsynlegt að ráðfæra sig við sem flesta þegar ákveða skal stefnu í ýmsum málum. Við þingmenn þekkjum það að við fáum tölvupóst frá ansi mörgum. Við erum komnir í beint samband við marga í gegnum netið og tölvupóst. Þeir kostir buðust ekki áður. Ég fagna því að fólki gefist kostur á að hafa beint og milliliðalaust samband við okkur, eins og það gerir á netinu og í gegnum tölvupóst. Það er til mikilla bóta að fá strax viðbrögð þegar menn velta fyrir sér ákveðnum hlutum og gott að sjá hvað fólk úti í bæ segir og veltir fyrir sér.

Í umræðum á Alþingi hafa menn hneykslast á því að hlustað sé á fólk úti í bæ, eins og það er orðað. En ég ætla að vona að, a.m.k. meðan ég starfa á þingi, ég verði aldrei það forhertur að ég hætti að hlusta á fólk úti í bæ. Það hlýtur að vera til bóta að hlusta á þá sem kusu þingmenn til starfa á þingi til að taka ákvarðanir. Ákvarðanataka hlýtur alltaf að enda á herðum hins kjörna, hvort sem það er kjörinn fulltrúi á Alþingi eða í sveitarstjórn, en áður en ákvörðun er tekin þá veitir ekki af því að bera hugmyndir og áform undir sem flesta.

Þessi till. til þál. gerir ráð fyrir því að margir séu til kvaddir og tiltölulega fjölbreytilegur hópur skipi nefndina sem lagt er til að skipuð verði. Þar yrðu fulltrúar háskólanna eins og fram hefur komið, neytendasamtaka, því neytendasamtök eiga að koma að vinnu eins og þessari, verkalýðsfélaga og sveitarfélaga. Ég tel eðlilegt, eins og segir í tillögunni eins og hún liggur fyrir, að nefndin kanni hvaða áhrif milliliðalaust lýðræði hefði á samfélagið, efnahagslega, félagslega og stjórnmálalega. Sérstaklega yrði að skoða það með tilliti til sveitarstjórna og sveitarfélaganna þar sem auðvelt er að nota milliliðalaust lýðræði í miklum mæli.

Eins og ég lýsti áðan þá hafa íbúaþingin gefist vel í sveitarfélögunum. Ég held að full ástæða sé til að velta fyrir sér svipuðu formi á landsvísu. Ég veit að þjóðaratkvæðagreiðsla er eitthvað sem við eigum örugglega eftir að taka upp í meiri mæli í stærri málum. En í öðrum málum mætti velta fyrir sér hvort ekki væri hægt að þróa einhvers konar aðferð eða aðferðir sem nálgast aðferðafræði íbúaþinga í sveitarfélögum þegar upp koma mál sem snerta menn á landsvísu. Ég er fullviss um að kjósendur mundu fagna því ef meira væri til þeirra leitað þegar verið er að þinga hér um mál.