Kornrækt á Íslandi

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 19:12:04 (6706)

2004-04-23 19:12:04# 130. lþ. 101.18 fundur 433. mál: #A kornrækt á Íslandi# þál., JGunn
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[19:12]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. flm., Önundi S. Björnssyni, fyrir að hreyfa þessu góða máli. Ég held að það sé full ástæða til að ræða aðeins um kornrækt á Alþingi.

Þáltill. sú sem liggur fyrir gerir ráð fyrir að þetta verði skoðað á þrennan hátt. Í fyrsta lagi hvernig stórauka megi kornrækt til fóðurgerðar á Íslandi. Síðan er því velt upp hvort hægt sé að stunda kornrækt sem aðalbúgrein og að lokum að nefndin leggi mat á hagkvæmni þess að rækta fóðurkorn á Íslandi og gildi þess fyrir atvinnulífið. Þessi setning er lykilsetning að mínu viti í þáltill. Hér er ekki verið að leggja til einhverjar skýjaborgir heldur að lagt verði raunverulegt mat á það hver hagkvæmni gæti verið að stunda kornrækt hér og hvaða gildi það hefði fyrir atvinnulífið, væntanlega til sveita.

Fram kom í máli hv. flm. að við notum um 70 þús. tonn af korni og það þyrfti einungis um 15 þús. hektara, ef ég tók rétt eftir, til þess að framleiða fóðurkorn fyrir innanlandsmarkað. Aftur á móti sé hægt að framleiða þetta á 600 þús. hekturum þannig að það er alveg augljóst að það verður hægt að velja og velja vel það land sem rækta á korn á.

Kornræktin hefur verið nokkuð víða. Það er verið að rækta korn í dag á svæðum þar sem það hvarflaði ekki að mönnum að hægt væri að rækta korn áður. Þar kemur loftslagsbreytingin til eins og nefnt hefur verið. Eins er verið að koma fram með ný kornafbrigði sem standa sig vel í venjulegu íslensku veðri.

Ég held að við hljótum að þurfa að skoða, og það hlýtur að vera hlutverk nefndarinnar sem lagt er til að sett verði á laggirnar, hvort bændur séu að keppa við ríkisstyrkta erlenda kornrækt því það er ekki þannig sem við viljum sjá þetta. Ég held að hvernig sem á málið er litið sé nauðsynlegt að kanna hvort stórhuga kornrækt sé raunverulegur kostur á Íslandi og gefa sér ekki þá niðurstöðu fyrir fram.