Kirkjugripir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 19:36:20 (6711)

2004-04-23 19:36:20# 130. lþ. 101.19 fundur 434. mál: #A kirkjugripir# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[19:36]

Össur Skarphéðinsson:

Frú forseti. Mér þykir mjög við hæfi að einn af öndvegisklerkum þjóðkirkjunnar skuli flytja þetta merka þingmál, sem mér finnst það vera. Þetta er eitt af þeim málum sem manni finnst í reynd alveg sjálfsagt. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að svona væri í pottinn búið. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að búið væri að fara um kirkjur landsins og safna þaðan merkustu dýrgripum þeirra saman á einn stað og hugsanlega flytja drjúgan hluta þeirra úr landi.

Það má segja að á sínum tíma hafi þetta hugsanlega verið jákvætt, þegar erfiðara var að verja listgripi, ekki síst fyrir þeim sem hugsanlega vildu fara höndum ræningja um þessa gripi. Nú er öldin önnur. Það má segja að þessi stefna hafi verið, eins og hæstv. ráðherra kirkjumála segir stundum, barn síns tíma. Nú eru aðrir tímar. Ég tel ákaflega vel við við hæfi að þessi tillaga verði samþykkt af Alþingi og því hrint í framkvæmd að gripum sem er að finna á Þjóðminjasafninu, fáum til yndisauka, fáum til fróðleiks og enn færri til gagns, yrðu aftur fluttir til síns heima.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson benti á ljóð, að því er hann taldi, á ráði þessarar tillögu. En af því að hv. þm. er áhugamaður um sögu sjávarútvegsins, eins og ítrekað hefur komið fram á þingi, má benda á að Þjóðminjasafnið hefur komið nokkuð að því að verja þá sögu. Eða hvað, frú forseti? Minnumst við þess ekki öll að það var Þjóðminjasafnið sem safnaði saman á einn stað öllum helstu minjum frá þeim tíma sjávarútvegsins er menn stunduðu útræði á höndum? Það mætti spyrja hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson hvar þessar ómetanlegu minjar eru niður komnar í dag. Frú forseti. Þær eru einhvers staðar á sveimi í gufuhvolfinu í formi sameinda. Þeim var safnað saman á einn stað og það kviknaði í því húsi og ekkert af þessum ómetanlegu minjum bjargaðist. Auðvitað mætti átelja Þjóðminjasafnið fyrir það hvernig staðið var að vörnum á þessu. Ég ætla ekki að gera það í þessari ræðu þótt mér þyki það grátlegt og sorglegt. Það eina sem við höfum eftir til minja um margvíslegar hefðir sem þróuðust á sviði árabátasmíða á Íslandi eru til vegna þess að stöku bátur var í láni og Þjóðminjasafnið hafði ekki enn gert reka að því að hirða þá alla hingað suður. Það er mjög hættuleg stefna að safna saman á einn stað öllum helstu dýrgripum þjóðarinnar á tilteknu sviði.

Annað dæmi er auðvitað bruninn mikli í Kaupmannahöfn, sem varð að yrkisefni Halldórs Laxness í hinni ódauðlegu skáldsögu hans Íslandsklukkunni. Þar brann stór hluti þeirra handrita sem Árni Magnússon hafði saman safnað og menn á undan honum. Það er hætta fólgin í því að safna öllum svona gripum saman á einn stað. Segja má að stefnan sem fram kemur í tillögu hv. þm. Önundar Björnssonar feli í sér það að við dreifum áhættunni við varðveislu þessara gripa.

Hins vegar er það alveg rétt sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði, að það er hugsanlegt að með því að skila gripunum aftur í sínar gömlu heimakirkjur skapist hætta á því að óvandaðir menn fari ránshendi um kirkjurnar. Við höfum mörg dæmi um það af Íslandi á síðustu árum. Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson vísaði til fregna frá Ítalíu þar sem þúsundir slíkra gripa hverfa á hverju ári. Við eigum að líta á það sem reynslu og læra af því. Ef þingið bæri gæfu til þess að samþykkja þessa prýðilegu tillögu hv. þm. Önundar Björnssonar þá ætti samhliða að leggja fram ákveðnar forsendur og skilyrði fyrir því að kirkjur fengju slíka gripi. Það væri hægt að gera það að forsendu afhendingar gripanna að fylgt væri ákveðnum stöðlum til að verja þá. Ég tel fortakslaust að kirkjur ættu ekki að fá til baka gripina nema þær féllust á slíkt.

Við skulum ekki gleyma því að kirkjan er undirstaða menningar og lista á Íslandi. Vísindin þróuðust alfarið út frá kirkjunum. Nútímaraunvísindi á Íslandi þróuðust í gegnum Guðbrand Þorláksson biskup á Hólum og síðan langafabarn hans, Þórð Þorláksson, sem var þjóðhagi á smíðar og biskup í Skálholti. Þessir menn lögðu grundvöllinn að hvers konar raunvísindum, stærðfræði, stjörnufræði og landafræði. Líkast til hafa fáir jafnmiklir afreksmenn, hugsanlega einhverjir en mjög fáir, staðið Guðbrandi Þorlákssyni á sporði hvað atgervi og þekkingu varðaði.

Ef við skoðum uppruna myndlistar á Íslandi þá sjáum við líka að hún þróaðist öll í kringum kirkjur. Hún þróaðist í kringum gerð altaristaflna. Hólastaður og Skálholt sendu öldum saman menn til prestsnáms hingað suður. Þeir efnilegustu fóru utan og margir þeirra, sem höfðu að upplagi til að bera hæfileika til dráttlistar, náðu að þroska þá með einhverjum hætti í Kaupmannahöfn. Þannig má segja að upphaf myndlistar hafi verið í gegnum kirkjurnar og kirkjulegar athafnir. Þetta er því sanngirnismál. Tímarnir eru þannig í dag að það er hægt að verja gripina þótt þeim sé skilað aftur til kirknanna. Ég tel að það mundi efla mjög mikilvægi kirknanna. Það mundi líka ýta undir það sem við tölum stundum um og heitir menningartengd ferðaþjónusta.

Ég vil að síðustu taka sérstaklega undir það sem hv. þm. Lára Stefánsdóttir sagði varðandi þá gripi sem er að finna, engum til gagns, í dönskum söfnum en skipta sennilega hundruðum. Auðvitað á það að vera krafa af hálfu íslensku þjóðarinnar að þessum gripum verði skilað aftur. Þegar við náðum samningum við Dani um að fá handritin aftur heim þá skrifuðu íslenskir ráðamenn að vísu undir samning þess efnis að þeir mundu aldrei gera tilkall til þess. En það var líka forsenda þeirra samninga á sínum tíma og það viðhorf var líka barn síns tíma.

Í dag eru uppi önnur viðhorf varðandi sjálfstæði þjóða og tilkall þeirra til eigin arfleifðar á sviði menningar og sögu. Ég tel fortakslaust að á næstu árum og áratug þá hljóti stjórnvöld að gera reka að því að kalla þessa muni heim til Íslands.

Hv. þm. Jón Bjarnason nefndi frábært dæmi, um merkilegan kaleik úr Hóladómkirkju sem ekki er vitað hvar er niður kominn í Danmörku en er örugglega þar til staðar. Það á að gera skipulega leit að slíkum munum, skrá þá og gera síðan formlegt tilkall til þeirra.

Ég fagna tillögu hv. þm. Önundar Björnssonar og vona að hún verði samþykkt.