Kirkjugripir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 19:44:29 (6712)

2004-04-23 19:44:29# 130. lþ. 101.19 fundur 434. mál: #A kirkjugripir# þál., MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[19:44]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég vil árétta að þegar ég benti á það áðan að vanda þyrfti til þessa verks þá var ég ekki að mæla gegn því að þetta yrði gert, alls ekki. Ég vildi hvetja til þess að menn gættu sín á að rasa ekki um ráð fram í málinu. Eins og ég benti á, er mikið af þessum gripum mjög dýrmætir og ómetanlegir. Því miður er það þannig í okkar annars ágæta þjóðfélagi að menn virðast töluvert hafa verið að færa sig upp á skaftið á undanförnum árum, einmitt hvað varðar þjófnaði og rán. Margir af þessum gripum eru þess eðlis að hægt er að fá fyrir þá háar fjárhæðir á mörkuðum. Það var fyrst og fremst þetta sem ég átti við.

Við þurfum að búa þannig um hnútana, ég tek undir þau orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að til yrðu ákveðnir staðlar. Alla vega þarf að fara mjög vandlega yfir það hvernig við ætluðum að tryggja að þessir munir hverfi ekki og tryggja að þessir munir liggi ekki undir skemmdum í kirkjunum.

Ég er þeirrar skoðunar að allir listgripir, hvort sem það eru kirkjugripir eða aðrir gripir, séu lítils virði ef fólk fær ekki að njóta þeirra. Þeir eru lítils virði geymdir í pappakössum, það er alveg rétt. Gripirnir eiga að vera til sýnis, til þess voru þeir búnir til. Fólk á að fá að njóta þeirra og þeir njóta sín hvergi betur en í sínu rétta umhverfi, sem eru kirkjurnar. En þá ber okkur að tryggja að þeir séu öruggir.