Kirkjugripir

Föstudaginn 23. apríl 2004, kl. 19:46:11 (6713)

2004-04-23 19:46:11# 130. lþ. 101.19 fundur 434. mál: #A kirkjugripir# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 130. lþ.

[19:46]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson erum vísast ekkert ósammála um þetta efni. Ég held að við séum þeirrar skoðunar, eins og hv. þm. sagði, að menn eigi ekki að rasa um ráð fram, en ég held að við séum sammála því að ef hægt er að skapa forsendur fyrir því að verja gripina sé það flestum til bóta að skila þeim aftur heim í kirkjurnar. Ég held að það sé úrelt stefna í dag að safna hlutum af þessu tagi saman á einn stað og sýna þá. Hverjum? Eru það ekki fyrst og fremst útlendingar? Jú, og skólabörn sem sækja heim söfn eins og Þjóðminjasafnið. En ég og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson nytum þessara gripa miklu betur ef þeir væru í kirkjum eins og á Breiðabólsstað í Fljótshlíð. Ég veit ekki hversu mikla áherslu hv. þm. Frjálslynda flokksins leggja á að bergja blóð Krists úr kaleik í kirkjum, en við sem lítum á okkur sem kristin og fylgjum Samf. að málum, teljum það nokkurs virði. Ég lýsi því ekki fyrir hv. þm. hversu miklu mikilvægara og meiri upplifun það væri fyrir mig að bergja það af börmum bikars sem er frá 1357 og hugsanlega frá álfum kominn, eins og sóknarpresturinn á Breiðabólsstað hefur upplýst í umræðunni. Ég tel að fyrir mjög marga hefði það sterkt trúarlegt og tilfinningalegt gildi.

Almennt er ég þeirrar skoðunar að það fari vel á því og sé í takt við tímann, takt við það að leggja rækt við upprunann, að þessum gripum verði aftur fundinn staður þar sem þeir komu fyrst fram og voru hugsanlega búnir til, hjá sínum heimasöfnuði.