Frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:08:58 (6722)

2004-04-26 15:08:58# 130. lþ. 102.1 fundur 498#B frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Nú hefur skýrslan um eignarhald á fjölmiðlum loksins verið gerð opinber og frv. verið kynnt í ríkisstjórn og í stjórnarflokkunum sem hæstv. forsrh. segir byggt á tillögum nefndarinnar.

Ein meginniðurstaða nefndarinnar er sú að markmiðum beinna reglna um takmarkað eignarhald yrði ekki náð að öllu leyti nema þær yrðu afturvirkar, að uppbygging á fjölmiðlamarkaði yrði brotin upp og fyrirtækjum gert að laga sig að þeim takmörkunum sem slíkar reglur fælu í sér. Nefndin segir að slíkt fæli augljóslega í sér inngrip hins opinbera í ríkjandi markaðsaðstæður sem gæti orðið fyrirtækjum þungbært og kostnaðarsamt, auk þess sem álitamál gæti risið um þær skorður sem ákvæði stjórnarskrár um vernd eignarréttar og atvinnufrelsi kynnu að setja í þessu efni. Leggur nefndin til að af þessum sökum sé fyrst og fremst horft til áhrifa slíkra reglna til framtíðar.

Nú benda fréttir til þess að frv. sem kynnt var í ríkisstjórninni feli í sér takmarkanir sem ná ekki aðeins til framtíðar heldur verði fyrirtæki á fjölmiðlamarkaði brotin upp, reyndar með tilteknum aðlögunarfresti eftir því sem greint er frá. Það er áhyggjuefni margra að slíkt frv. kunni að fela í sér afturvirkni, enda grundvallaratriði við lagasetningu að lög séu ekki gerð afturvirk.

Ég vil því spyrja hæstv. forsrh.: Telur hæstv. forsrh. unnt að komast hjá hættu á afturvirkni í slíkri lagasetningu eigi hún að ná til markaðarins eins og hann lítur út í dag? Ef svo er, hvernig? Eða telur hæstv. forsrh. enga ástæðu til að hafa áhyggjur af þessum varnaðarorðum nefndarinnar um afturvirkni og um að slík lög kynnu að brjóta í bága við atvinnufrelsis- og eignarréttarákvæði stjórnarskrár?