Frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:13:12 (6726)

2004-04-26 15:13:12# 130. lþ. 102.1 fundur 498#B frumvarp um eignarhald á fjölmiðlum# (óundirbúin fsp.), BH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:13]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Það gerðu fjölmargir aðrir vegna þess að það var ekki boðið upp á annað. Það var ekki boðið upp á neitt nema lekann sem kom úr ríkisstjórn hæstv. forsrh. Það var boðið upp á það að tjá sig um hann og það reyndu fjölmargir að gera, ekki bara stjórnmálamenn heldur líka prófessorar og ýmsir sem reyndu að tjá sig um efni frv. undir þeim kringumstæðum.

Virðulegi forseti. Efni þessa máls snýst um afturvirknina og ég held að það sé orðið alvarlegt mál þegar ríkisstjórnin er tilbúin að leggja fram frv. sem nefndin sem frv. á að byggja á geldur sérstaklega varhuga við nákvæmlega þeim þætti málsins og það á að skauta fram hjá honum. Ég undrast ekki afstöðu hæstv. forsrh. Hann hefur margoft sýnt hvaða afstöðu hann hefur í þessu máli og hvaða afstöðu hann hefur til þeirra fyrirtækja sem lögin eiga að ná til. En ég undrast það að Framsfl. skuli enn og aftur vera tilbúinn að skrifa upp á eitthvað í þá veru. Síðan á að vísa mönnum áfram: Gjörið þið svo vel, farið til dómstóla ef þið viljið leita réttar ykkar, ef það skyldi gerast að þessi lög brytu í bága við stjórnarskrá.