Fyrirætlan ríkisstjórnarinnar í skattamálum

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:17:13 (6729)

2004-04-26 15:17:13# 130. lþ. 102.1 fundur 499#B fyrirætlan ríkisstjórnarinnar í skattamálum# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:17]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Um síðustu kosningar töluðu flestir, sem betur fer, ef ekki allir stjórnmálaflokkar landsins, kannski síst Vinstri grænir, nokkuð glaðlega um skattalækkanir. Ég held því fram að minn flokkur hafi kannski gengið þar einna lengst, ég vona a.m.k. að það megi segja að hann hafi gengið hvað lengst í þeim efnum.

Það var viðhorf hins stjórnarflokksins hins vegar við samningu stjórnarsáttmála að það væri eðlilegt og málefnalegt að horfa til slíkra hluta í samræmi við gerð kjarasamninga. Það fannst mér skynsamleg ábending og skynsamleg rök og fyrir okkar leyti féllumst við á að það væri hin rétta aðferð. Í stjórnarsáttmálanum eru ákvæði um skattalækkanir sem stjórnarflokkarnir hafa komið sér saman um. Ég taldi æskilegt að slík áætlun lægi fyrir og yrði lögfest sem fyrst. Ég tel að treysta megi þeim yfirlýsingum sem við höfum gefið, flokkarnir tveir. Við erum að ræða skattamálin. Það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun um hvort við náum því að leggja það fram nú í vor eða í haust. Það verður að koma í ljós.