Fyrirætlan ríkisstjórnarinnar í skattamálum

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:20:23 (6732)

2004-04-26 15:20:23# 130. lþ. 102.1 fundur 499#B fyrirætlan ríkisstjórnarinnar í skattamálum# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er alveg ótrúlegt hvað hæstv. ríkisstjórn dregur lappirnar í þessu máli. Hún lofaði skattalækkunum, það var eitt af meginmálum Sjálfstfl. í síðustu kosningum. Það var boðað að málið yrði lagt fram í upphafi þessa þings. Hingað til höfum við hins vegar ekkert séð nema skattahækkanir. Í framhaldinu var því síðan lofað að leggja fram skattalækkanir í kjölfar þess að gerðir yrðu hóflegir kjarasamningar.

Nú hafa verið gerðir hóflegir kjarasamningar og ekkert bólar á skattalækkunum ríkisstjórnarinnar. Maður spyr sig: Ætlar ríkisstjórnin að efna loforðin eða ekki? Það eru einstaklingar í landinu sem bíða eftir því að tekjuskattur verði lækkaður vegna þess að þeir hafa séð lítið af tekjuskattslækkunum hjá núverandi ríkisstjórn meðan hún hefur verið við völd sl. átta ár. Ég skora á hæstv. forsrh. að efna þessi loforð og láta það verða eitt af sínum síðustu verkum í stóli hæstv. forsrh. að leggja fram a.m.k. áætlun um hvernig að þessu verði staðið.