Íþróttaáætlun

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:22:20 (6734)

2004-04-26 15:22:20# 130. lþ. 102.1 fundur 500#B íþróttaáætlun# (óundirbúin fsp.), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:22]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Frjálsl. ásamt flutningsmönnum úr röðum Vinstri grænna og Samf. hefur lagt fram þáltill. um íþróttaáætlun. Í tillögunni er lagt til að menntmrh. leggi fram íþróttaáætlun til fimm ára í senn. Í greinargerð tillögunnar er fjallað um gildi íþrótta fyrir líkamlega og andlega vellíðan fólks en það kemur sífellt betur í ljós hvernig þær efla þrek og þrótt ungra sem aldinna.

Þá hafa sjónir manna einnig beinst að hlut þeirra í forvörnum gegn vímuefnaneyslu og öðru miður góðu líferni. Enn fremur er því við að bæta að fagleg umfjöllun eigi sér stað um rannsóknir sem ríkið tekur þátt í á sviði íþróttamála. Ítarlegum rannsóknum á fjárhagslegum áhrifum íþrótta á heilbrigðiskerfið er ábótavant.

Niðurstöður verkefnisins Lífsstíll 9 og 15 ára Íslendinga hafa nýlega verið kynntar. Þar kemur fram að börn á Íslandi eru almennt 25% feitari en gengur og gerist annars staðar í veröldinni. Niðurstaða skýrslunnar kallar á róttækar aðgerðir stjórnvalda því offituvandamál íslenskra barna gæti breyst í geigvænlegt heilbrigðisvandamál þegar fram í sækir samkvæmt frétt í Morgunblaðinu um helgina.

Í ljósi þessa legg ég fram eftirfarandi spurningar til hæstv. menntmrh.:

1. Hefur hæstv. menntmrh. kynnt sér niðurstöður verkefnisins Lífsstíll 9 og 15 ára Íslendinga?

2. Hefur hæstv. ráðherra í hyggju að leggja fram íþróttaáætlun til nokkurra ára í senn og tryggja þar með langtímastefnumarkmið ríkisins í þeim efnum?

3. Hefur hæstv. ráðherra einhverjar hugmyndir um fjárhagsleg áhrif og gildi íþrótta á íslenskt heilbrigðiskerfi?

4. Eru rannsóknir í bígerð á vegum ráðherra um gildi íþrótta á íslenskt samfélag í félagslegu og efnahagslegu tilliti?