Fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:26:41 (6738)

2004-04-26 15:26:41# 130. lþ. 102.1 fundur 501#B fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi# (óundirbúin fsp.), AKG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:26]

Anna Kristín Gunnarsdóttir:

Herra forseti. Komið hefur fram í fjölmiðlum að skólameistarar framhaldsskólanna spá að miðað við fjárveitingar muni vanta 400--1.000 sæti í framhaldsskóla á komandi hausti. Fulltrúar Samf. í fjárln. bentu á fyrirsjáanlegan fjárskort í umræðunni um fjárlög ársins 2004 en stjórnarflokkarnir völdu pena niðurstöðutölu fjárlaga umfram það að áætla fjármagn samkvæmt þörf.

Mikil fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi var fyrirsjáanleg. Um er að ræða stærri árganga úr grunnskóla en undanfarin ár. Hlutfall hvers árgangs sem kemur beint inn í framhaldsskólana fer hækkandi, m.a. vegna lélegs atvinnuástands, og framhaldsskólum helst betur á nemendum sínum í kjölfar markvissrar vinnu gegn brottfalli.

Í frétt um helgina var haft eftir menntmrh. að nemendur í grunnskóla mundu hafa forgang við innritun í framhaldsskólann í haust og nemendur sem vildu eða þyrftu að flytjast á milli skóla fengju einnig sæti. Forgangur þýðir að þeir eigi að fá skólavist á undan öðrum en ekki til jafns við aðra. Má þar búast við að fullorðnir eða fjarnemar sem eru að afla sér menntunar, oft með ærinni fyrirhöfn og kostnaði, verði látnir víkja.

Með síðustu skólasamningum um framhaldsskóla og menntmrn. var sent bréf til skólameistara sem ekki á sér fordæmi en þar eru skólameistarar varaðir við að taka fleiri nemendur inn í skólana en skólasamningar gera ráð fyrir því ekki verður gert upp við skólana eftir á eins og gert hefur verið undanfarin ár. Þetta bréf og innihald þess er gjörbreyting frá því sem tíðkast hefur á liðnum árum en þá hefur skólum ætíð verið greiddur mismunur vegna fleiri nemenda en skólasamningar gerðu ráð fyrir.

Spurningar mínar til hæstv. menntmrh. eru því: Mun hæstv. menntmrh. koma til móts við framhaldsskólana með samningum um frekari fjölgun og gera þeim þannig kleift að taka við öllum þeim nemendum sem sækja um skólavist á komandi vetri? Hyggst hæstv. ráðherra leggja fram tillögu til Alþingis um aukið fjármagn til framhaldsskólanna á yfirstandandi ári til að mæta fyrirsjáanlegri fjárþörf vegna fjölgunar nemenda?