Fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:28:57 (6739)

2004-04-26 15:28:57# 130. lþ. 102.1 fundur 501#B fjölgun nemenda á framhaldsskólastigi# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:28]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að fjárþörf framhaldsskólanna er mikil og hún kemur til með að aukast, ekki síst í ljósi þess að árgangarnir eru að stækka og við sjáum fram á að fram til ársins 2009 komum við einfaldlega til með að glíma við og þurfa að leysa þau vandamál og viðfangsefni sem fylgja stærri árgöngum sem sækja um í framhaldsskólunum. Ég hef lýst því yfir að að sjálfsögðu muni þeir sem eru að útskrifast úr grunnskóla núna, innritunarárgangarnir, sem og þeir sem eru fyrir í framhaldsskólum njóta forgangs miðað við það fjármagn sem er í dag inn í framhaldsskólana. Ef við lítum í fyrsta lagi til sögunnar varðandi framlög til framhaldsskólanna er ljóst að Alþingi hefur alltaf leyst úr þeim fjárhagsvanda sem framhaldsskólarnir hafa átt við að etja. Sumir framhaldsskólar hafa þurft á meira fjármagni að halda og aðrir minna. Þannig höfum við reynt að millifæra, m.a. á milli skólanna, þannig að við getum staðið frammi fyrir því að uppfylla þær kröfur og væntingar sem nemendur gera til þess að fá að fara inn í skólana. Að sjálfsögðu munum við halda áfram að leysa þessi viðfangsefni sem eru krefjandi og ögrandi, þ.e. hin mikla ásókn í framhaldsskólana. Við munum leysa það eins og við höfum leyst fram að þessu.

Bréfið sem var sent til framhaldsskólanna og hv. þm. vísar til og við höfum rætt gaumgæfilega á þingi er einfaldlega liður í því sem við teljum vera ábyrga fjármálastjórnun, þ.e. að við bendum skólameisturum á að við höfum í samvinnu við þá talað um ákveðna viðmiðunartölu varðandi innritanir. Síðan, og ég lýsti því yfir á góðum fundi með skólameisturunum, munum við fara yfir þessar tölur þegar innritunartölurnar sjálfar liggja fyrir um og upp úr miðjum júní. Þá fyrst er hægt að segja raunverulega hver vandinn er. Fyrr er ekki hægt að gera það.