Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 15:56:30 (6745)

2004-04-26 15:56:30# 130. lþ. 102.32 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, Frsm. GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[15:56]

Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 47/1993, um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins, og lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum.

Félmn. fékk á fund til sín Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur frá félmrn. og einnig bárust nefndinni umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnulífsins.

Frumvarpið er lagt fram vegna stækkunar Evrópska efnahagssvæðisins en 10 ný ríki bætast í hóp þess svæðis núna. Í frumvarpinu er lagt til að beitt verði aðlögunarheimildum aðildarsamnings EES þannig að ákvæði 1.--6. gr. reglugerðar (EBE) nr. 1612/68, um frelsi launþega til flutninga innan Evrópska efnahagssvæðisins, ásamt síðari breytingum, taki ekki gildi um atvinnu- og búseturétt ríkisborgara hinna nýju ríkja að undanskildum Möltu og Kýpur, fyrr en 1. maí 2006. Það leiðir af frestun á gildistöku framangreindra reglugerðarákvæða að ákvæði a-liðar 14. gr. laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, taka ekki gildi fyrr en 1. maí 2006 að því er varðar ríkisborgara ríkjanna átta. Er þetta í samræmi við ráðstafanir sem önnur ríki á Evrópska efnahagssvæðinu hafa gert í tengslum við stækkun samningsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Undir nefndarálitið skrifa Guðlaugur Þ. Þórðarson, Guðjón Hjörleifsson, Pétur H. Blöndal, Birkir J. Jónsson, Gunnar Örlygsson, Ísólfur Gylfi Pálmason, Helgi Hjörvar og Jóhanna Sigurðardóttir.