Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 16:11:48 (6749)

2004-04-26 16:11:48# 130. lþ. 102.32 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:11]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni og formanni félmn. að starfsmannaleigur hafa marga kosti. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að það þurfi að setja skorður við því sem starfsmannaleigur mega gera til að tryggja að við getum í framtíðinni í vaxandi mæli nýtt okkur kosti þeirra. Ég tel að hvort sem okkur líkar betur eða verr sé þróunin sú að menn muni í vaxandi mæli notfæra sér ýmsa þjónustu sem þær hafa upp á að bjóða. Dæmin sýna hins vegar að vegna þess að ekki eru samhæfðar reglur um þetta í Evrópu fara þær oftsinnis út fyrir þau mörk sem við teljum ásættanleg. Sér í lagi birtist stundum í starfsemi þeirra ákveðinn mismunur milli menningar ólíkra þjóða, má segja, þar sem sumar þessara starfsmannaleigna sem eru staðsettar annars staðar en á Íslandi telja við hæfi það sem við Íslendingar teljum allsendis út úr öllu korti.

Ég verð hins vegar að leiðrétta hv. þingmann að því leyti til að það er ekki lengur nauðsynlegt fyrir mig að beina þessu til hæstv. félmrh. Ég hef notfært mér minn lýðræðislega rétt til að leggja málið fyrir þingið. Þingið hefur vísað þessu til umræðu í nefnd sem hv. þm. stýrir, og örugglega farsællega. Ég er kominn hingað til að spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki ljóst í ljósi undirtekta, jafnt ráðherra sem óbreyttra þingmanna eins og hans sjálfs, að málið fái umræðu í nefndinni og, miðað við undirtektir, hvort ekki sé þörf á því að afgreiða það með einhverjum hætti.

Það þarf ekki að leggjast í djúpar rannsóknir á málinu vegna þess að það felur einungis í sér að samþykkja að fela ríkisstjórninni að leggja fram frv. að þessu máli. Með öðrum orðum, þetta er lagt í hendur ríkisstjórnarinnar og engra annarra.