Frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 16:14:01 (6750)

2004-04-26 16:14:01# 130. lþ. 102.32 fundur 736. mál: #A frjáls atvinnu- og búseturéttur launafólks innan EES# (frestun á gildistöku reglugerðar) frv. 19/2004, Frsm. GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Frsm. félmn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir það innlegg sem hann kom með hér aftur. Ég get fullyrt að meiri hluti félmn. mun skoða það vel og við munum fara yfir það núna, þegar við förum yfir vinnulag okkar fyrir vorið, hvaða málum við getum komið inn. Þetta er eitt af þeim málum sem að sjálfsögðu koma til greina. Hins vegar treysti ég mér ekki til þess að lýsa því yfir hér og nú hvort við náum að klára það fyrir vorþingið og ég veit að þingreyndur maður eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson þekkir það og skilur af hverju það er. Það er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig hvað það varðar.

Hins vegar get ég fullyrt að við munum skoða þetta með jákvæðum augum og meta það. Það eru góðir fulltrúar fyrir hans flokk, Samf., í félmn. og við tökum að sjálfsögðu tillit til óska þeirra. Þar er gott samstarf og ég á von á því að það verði áfram.