Aðild að Gvadalajara-samningi

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 16:19:19 (6752)

2004-04-26 16:19:19# 130. lþ. 102.23 fundur 883. mál: #A aðild að Gvadalajara-samningi# þál. 22/130, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:19]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þessari þáltill. er leitað heimildar Alþingis til þess að Ísland gerist aðili að samningi um samræmingu tiltekinna reglna varðandi loftflutninga milli landa sem annar aðili en hinn samningsbundni flytjandi annast. Það er viðbót við Varsjársamninginn sem gerður var í Gvadalajara 18. september 1961 og Montreal-bókun nr. 4 um breytingar á samningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga á milli landa er undirrituð var í Varsjá 12. október 1929 eins og honum var breytt síðar með Haag-bókuninni frá 28. september 1955, sem undirrituð var í Montreal 25. september 1975, og til fullgildingar á samningi um samræmingu tiltekinna reglna varðandi loftflutninga milli landa sem gerður var í Montreal 28. maí 1999.

Vegna eðlis millilandaflugs er mikilvægt að reglur ríkja þar að lútandi séu ekki misleitar, sérstaklega hvað varðar bótaábyrgð flytjanda vegna tjóns. Áðurnefndir gerningar eru allir á sviði alþjóðlegs einkamálaréttar og skylda þeir aðildarríkin til að samræma löggjöf sína á tilteknum sviðum. Gvadalajara-samningurinn og Montreal-bókunin nr. 4 kveða á um breytingar á Varsjársamningnum um samræmingu nokkurra reglna varðandi loftflutninga milli landa frá 1929 og eru hluti af bótakerfi sem nefnt hefur verið Varsjárkerfið.

Í fyrrnefndum Gvadalajara-samningi er kveðið á um að gildissvið Varsjársamningsins skuli jafnframt látið ná til flytjanda í raun, þ.e. til flytjanda sem ekki er í beinu samningssambandi við farþega eða sendanda farms. Í Montreal-bókun nr. 4 er m.a. kveðið á um ábyrgð flytjanda vegna farmtjóns og póstflutnings. Einnig eru reglur um form flugfarmskírteina rýmkaðar til muna. Jafnframt er kveðið á um hækkun bótamarka samkvæmt Varsjársamningnum og Haag-bókuninni vegna farmtjóns.

Það þarf að gera breytingar á nokkrum ákvæðum í 10. kafla laga nr. 60/1998, um loftferðir, til að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem þessir samningar leggja á herðar aðildarríkjunum. Samgrh. hefur lagt fram lagafrumvarp þar að lútandi.

Varsjársamningurinn var lögfestur í heild sinni með lögum nr. 41/1949. Þeim lögum var svo breytt með lögum nr. 46/1956 þegar ákvæði Haag-bókunarinnar voru lögfest. Í samræmi við framangreint hefur samgrh. jafnframt lagt fram frv. til breytinga á lögum nr. 41/1949 sem gerir ráð fyrir lögfestingu ákvæða þessara samninga.

Eftir því sem leið á 20. öldina urðu flugsamgöngur sífellt öruggari og algengari ferðamáti. Samhliða þeirri þróun var hafist handa við að laga ákvæði Varsjársamningsins að breyttum aðstæðum. Sú vinna leiddi til þess að ýmsar bókanir, viðbótarbókanir og viðbótarsamningar við Varsjársamninginn litu dagsins ljós. Aðildarríki hans hafa þó ekki verið samtaka í aðild að framangreindum gerningum og er misjafnt hvaða gerningur gildir milli einstakra ríkja sem hefur m.a. leitt til ósamræmis milli þeirra á þeim reglum sem gilda um bótaábyrgð flytjanda. Ríki eru að sjálfsögðu einungis bundin af þeim gerningum sem þau eru aðilar að. Varsjárkerfið er því orðið mjög misleitt og bótareglur misjafnar eftir ríkjum.

Montreal-samningurinn er hins vegar heildstæður samningur sem byggður er á Varsjársamningnum frá 1929 og skyldum gerningum og jafnframt reglum á þessu sviði sem þróast hafa einhliða frá ýmsum ríkjum, ríkjasamtökum og Alþjóðasamtökum flugfélaga. Ákvæði Montreal-samningsins taka mið af þeirri þróun sem orðið hefur í alþjóðlegum flugsamgöngum frá gerð Varsjársamningsins og er honum ætlað að koma í stað Varsjárkerfisins þegar fram í sækir.

Eins og fyrr segir þarf að gera breytingar á nokkrum ákvæðum í 10. kafla laga nr. 60/1998, um loftferðir, til að Ísland geti staðið við þær skuldbindingar sem Montreal-samningurinn leggur aðildarríkjunum á herðar og hefur samgrh. lagt fram lagafrumvarp þar að lútandi.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.