Aðild að Gvadalajara-samningi

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 16:24:52 (6753)

2004-04-26 16:24:52# 130. lþ. 102.23 fundur 883. mál: #A aðild að Gvadalajara-samningi# þál. 22/130, RG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég mun að sjálfsögðu fá tækifæri til að kynna mér þennan samning í utanrmn. en þar sem ég var að skoða þessa tillögu rétt áður en hæstv. utanrrh. mælti fyrir málinu vöknuðu nokkrar spurningar hjá mér sem ég vil gjarnan nota tækifærið til að bera hér fram.

Ég sé að í þessum Varsjársamningi sem er upphafið að þeim samningum sem við ætlum að fullgilda er 151 land þátttakendur. Í Haag-bókuninni sem Ísland gerðist aðili að 1963 eru 135 lönd aðilar. Núna erum við að tala um að gerast aðilar að Gvadalajara-samningnum og þá átti ég von á því að þetta væri nýr samningur eða með einhverjar nýjar upplýsingar. Það er erfitt að sjá það. Ég sé samt að í febrúar á þessu ári eru aðildarríkin einungis 81. Það eru tiltölulega fá lönd miðað við þau lönd sem gerðust aðilar að bæði Haag-bókuninni og í upphafi að Varsjársamningnum. Ég sé líka að þessi samningur sem er gerður um samræmingu tiltekinna reglna er gerður 1961.

Þá vaknar spurningin: Af hverju erum við að gerast aðilar að honum núna og ekki fyrr? Er það út af einhverjum tengingum við þessa Montreal-bókun? Við erum ekki aðilar að Gvatemala-bókuninni sem var gerð 1971. Af hverju gerðumst við ekki aðilar að henni? Það vantar samfellu í vinnubrögð og samþykktir hjá Íslandi sem er nokkuð mikið flugríki, eyja sem notar mikið flugsamgöngur í flutningi farþega og varnings. Svo sé ég að við erum ekki með í Montreal-bókun 1, 2 og 3 en erum hins vegar með í viðbótarbókuninni, nr. 4. Að auki sé ég að bara 52 lönd eru aðilar að Montreal-bókuninni. Þá vaknar líka spurningin: Af hverju þurftum við ekki að vera með í 1, 2 og 3? Af hverju erum við með núna í bókun 4? Mér finnst erfitt að átta mig á þessu og ég held að fróðlegt væri að heyra hvað hæstv. utanrrh. segir um þetta.

Enn vakna spurningar varðandi ábyrgðirnar. Í þessu máli er talað um --- það er nú alltaf verið að tala um samræmingu reglna, samninginn um samræmingu tiltekinna reglna sem er erfitt að átta sig á --- hugtökin ,,samningsbundinn flytjanda`` og ,,flytjanda í raun`` og svo ,,ábyrgð sendanda`` og ,,ábyrgð flytjanda``. Hæstv. ráðherra orðaði það svo að það væri verið að --- hvernig orðaði hann það? --- víkka reglurnar eða eitthvað slíkt og því spyr ég: Er verið að auka ábyrgð flytjendanna eða er verið að rýmka ábyrgð flytjendanna? Yfir hvern færist þá þetta sem verið er að rýmka?

Ég tek líka eftir því að þetta nær til flytjenda sem ekki eru í beinu sambandi við farþega eða farm og þetta nær m.a. til flytjenda pósts. Er þessi regla eitthvað tengd því að verið er að rýmka allar reglur, líka reglur þar sem hafa verið einkaleyfi í löndunum? Lítum t.d. á póstflutninga sem voru áður alfarið á ábyrgð ríkisins í flestum löndum í Evrópu. Gjörbreytingar hafa orðið og nú eru bara aðrir aðilar í slíkum flutningum. Mig langar aðeins að fá frekari skýringu á praktísku eðli þessa máls.