Samningur um veitingu evrópskra einkaleyfa

Mánudaginn 26. apríl 2004, kl. 16:35:52 (6757)

2004-04-26 16:35:52# 130. lþ. 102.24 fundur 884. mál: #A samningur um veitingu evrópskra einkaleyfa# þál. 23/130, RG
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 130. lþ.

[16:35]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Sömuleiðis er ég bara með eina spurningu varðandi þetta mál. Ótvírætt er mikilvægt að möguleiki verði á því að vera með eina umsókn sem gefur réttindi í ríkjum Evrópu og jafnframt að vera með staðlaðar reglur. Fyrir þá sem eru hér að sækja um einkaleyfi til annarra landa er þetta mjög mikilvægur samningur.

Mig langar hins vegar að spyrja um hina hliðina, hvort hún breytist eitthvað eða hvort í þessu séu einhverjar reglur varðandi gildi einkaleyfa í íslenskum iðnaði. Með framleiðslu lyfja hefur verið horft mjög til einkaleyfa í lyfjaiðnaði og oft og tíðum verið beðið eftir því að einkaleyfin renni út þannig að lyfjaframleiðendur geti fengið heimild til að flytja lyf sín héðan til Evrópu. Þess vegna langar mig að spyrja hvort eitthvað í þessum samningi hafi þar áhrif eða hvort eitthvað breytist í umhverfi þeirra sem eru að framleiða og eru háðir í framleiðslu sinni einkaleyfum annarra.